sunnudagur, 10. febrúar 2002

Sundferð, prófkjör og Easy Rider

Við fórum í sund í dag og mikið var gott að slappa af og sleppa frá þessum látum heima. Það var nefnilega verið að skipta um vatnleiðslu í þurrkherberginu í gær og því fylgdi m.a. mikið steypuryk og hávaði.

Við hittum Ólöfu og Jóa í sundi, eða reyndar í sundklefunum, við vorum þá að fara upp úr en þau að koma ofan í. Eftir sundið skruppum við síðan á Salatbar Eika, besti staðurinn til að fara á ef maður vill borða í kósý umhverfi, í ró og næði og borða virkilega hollan og góðan mat fyrir slikk. Þeir eru alltaf með tilboð tveir fyrir einn milli kl. 17 og 19 á hlaðborðið þannig að þetta var ekki dýrt, sérstaklega þar sem Baldur borðar alltaf svo vel:)

Síðan var haldið upp í Odda þar sem við fórum bæði að læra, Baldur glímdi við stærðfræðibækur og svefn og ég las um þjóðernishyggju, mjög svo athyglisvert.

Pabbi hringdi síðan í okkur þegar við vorum enn að læra, hann var að fullvissa sig um að við hefðum örugglega kosið sem við vorum ekki búin að gera. Þá vorum við hvött til þess af mikilli festu þangað til ég lét undan og við drifum okkur upp á kjörstað.

Þegar þangað var komið hætti ég snarlega við að kjósa, ég ætla ekki að skrifa undir einhverjar yfirlýsingar takk fyrir. Baldur fór þó inn og kaus og ég stríddi honum á því að hann hefði verið siðferðislega vitlaus að gera það því hann vissi ekki hver helmingurinn af frambjóðendunum var.
Að lokum var haldið heim á leið til að missa ekki af vídeokvöldinu okkar sem við höfum á laugardagskvöldum. Í þetta sinn horfðum við á Easy Rider, klassísk mynd að sögn Balla, um mótórhjólagæja að sírutrippast. Ég sofnaði og missti því af þessu sírutrippi, har har.