Þá er ég komin í rúmlega tveggja vikna frí ef frí má kalla. Vinnuvikan í mannfræðinni hefst núna á miðvikudaginn og þar sem ég er ekki í skólanum á þriðjudögum er mitt frí hafið. Strax að vinnuviku liðinni tekur síðan páskafríið við og þá er sko nóg að gera. Baldur ætlar að syngja í eins mörgum messum og hann getur (maður fær svo góðan pening fyrir fermingamessur) og síðan er það skírnin hjá litla prinsinum hennar Maríu.
Mér tókst að klára þessa ritgerð í gær í grófum dráttum, nú er bara fínpússun eftir sem getur verið tímafrekasti partur ritgerðasmíða því maður les hana yfir aftur og aftur til að sjá hvort ekki sé allt í samhengi og hvort maður sé nokkuð að segja eitt á einum stað en sé seinna mér ekki samkvæmur sjálfum sér.
Plan þessarar viku er að gera ritgerðina fyrir þjóðernishópa en þar ætla ég að skrifa um innflytjendur í Vestur-Evrópu og taka Þýskaland sérstaklega fyrir og Tyrkina þar. Gróflega planað ætla ég mér daginn í dag og alla daga fram til sunnudagsins 24. mars í þessa ritgerð, eftir viku hefst ég síðan handa við að gera ritgerðina fyrir hagræna mannfræði og eyði einni viku í það og þá á ég eftir eina viku í ritgerðina fyrir etnógrafíu eyjaálfu.
Nú er bara að vera strangur við sjálfan sig, ég verð nefnilega að klára þessar ritgerðir áður en ég tek heimapróf í etnógrafíunni.