Eftir 3 tíma byrja ég í heimaprófi í etnógrafíu eyjaálfu og er ekkert alltof spennt. Fær maður aldrei frið fyrir kröfum kennara? Ég var að ljúka fjórum ritgerðum og er nýbúin að skila þeim af mér þegar ég þarf að eyða núna 3 dögum í að gera heimapróf.
Annars ætti ég ekki að kvarta, fyrir það fyrsta er ég fegin að fá að ganga í skóla en þar að auki klárast prófin 27. apríl hjá mér og þá er ég komin í 4 mánaða sumarfrí. Ég hef aldrei verið búin svona snemma í prófum áður og ætla sannarlega að njóta þess.
Að öðru. Um daginn minntist ég á uppgötvun okkar Baldurs á listhneigð okkar. Baldur var greinilega að slá ryki í augu mér með því að tala um sönglistina því áhugi hans liggur sko ekki bara þar.
Í gær fór hann nefnilega á málaranámskeið þar sem maður lærir að gera olíumálverk á striga. Hann kom síðan með herleg heitin heim og sannast sagna þá gapti ég af undrun. Í förum sínum hafi hann að geyma frábæra mynd af litlum kofa í rjóðri, alveg ofboðslega falleg. Ég ætlaði ekki að trúa því að Baldur hefði gert þetta og var á tímabili alveg viss um að myndin hefði verið prentuð á strigann og hann síðan málað í myndina.
En nei nei, ekkert slíkt. Nú er ég orðin spennt að fara sjálf á þetta námskeið og ætla að láta á það reyna strax eftir prófin. Ég er nú samt dáldið kvíðin því ef ég man rétt þá var það einmitt myndmennt sem ég þoldi síst í grunnskóla.