Niðri á Ingólfstorgi voru í dag tónleikar í tengslum við herferðina gegn fordómum. Allt byrjaði þetta stundvíslega klukkan 16 en við Baldur vorum mætt rétt fyrir 17 því þá átti að sleppa lausum 5.000 blöðrum. Þegar við komum aðvífandi var Ragga Gísla í sönggír en stuttu eftir það kom borgarstjórinn og klippti á borðann góða sem hélt saman blöðrubúntinu þannig að þær svifu til himins eins og litrík atóm. Mikil fagnaðarlæti brutust út enda margt um manninn í bænum.
Eftir blöðruatriðið röltum við um miðbæinn og virtum fyrir okkur mannlífið. Loksins eru laufin að springa út á trjám borgarinnar, ég er búin að bíða þessa í ansi langan tíma og finnst satt best að segja vorið vera seint á ferð. Nú virðist það hins vegar vera gengið í garð og held ég að veðurblíðan undanfarna daga staðfesti þá kenningu mína. Við settumst niður á bekk og tókum nokkrar myndir og röltum síðan að tjörninni og tókum enn fleiri myndir, í þetta skipti urðu þó fuglar myndefnið. Baldur er nefnilega ofsalega mikill fuglakall hef ég tekið eftir og hann má ekki sjá gæsir á vappi án þess að lýsa því fyrir mér hversu sniðug dýr honum finnast gæsir vera. Baldur er nú einu sinni alveg einstakur :)
Þegar tjörninni sleppti gengum við áfram í átt að háskólanum og komum við í bílnum til að ná í frisbíinn góða og græna. Í trjágöngunum frá Þjóðminjasafninu að Odda köstuðum við þeim græna á milli okkar, hjólreiðamönnum og hundaeigendum til mikillar skelfingar. Nú erum við hins vegar í Odda að netast, Baldur er að skoða verkfræðideildir og styrki og ég held ég leyfi mér að brávsa í friði. Á eftir er stefnan síðan tekin á sundlaug Laugardals og að því loknum held ég að við förum í göngutúr um Pókavoginn okkar. Góðar stundir.