Jæja, nú erum við komin í stríð við Landssímann. Eins og vaskir menn muna fórum við á munkasýninguna fyrir tæpri viku og komumst þá að því okkur til mikillar gremju að við höfðum ekki fengið þau sæti sem við pöntuðum. Í stað þess að vera fremst í stúkunni vorum við næst aftast og hefðum þurft á kíki að halda til að sjá hvað var að gerast á sviðinu.
Þetta voru mistök af hálfu Símans sem seldi okkur miðana og því fórum við í dag og sögðum farir okkar ekki sléttar. Lúðarnir þar tóku á það ráð að hringja í forstöðumann Listahátíðar Reykjavíkur og láta okkur tala við einhverja konu þar í símann. Sú sagði að þetta væri alfarið á ábyrgð Símans sem er auðvitað rétt og erum við helst undrandi á því að starfsmanni skyldi detta í hug að hringja í forstöðumann Listahátíðar með slíkt vandamál.
Í mínum augum er þetta einfalt: Síminn seldi okkur miðana og ber því alla ábyrgð á því að við skyldum fá vitlausa miða. Ef þeir geta ekki reynt að koma til móts við okkur og endurgreitt hluta verðsins verð ég hlessa, er þetta ekki fyrirtækið sem á múlti milljónir?