Þegar Baldur fór á fund í morgun ákvað ég að fljóta með niður í bæ í stað þess að sitja heima og lesa. Á meðan Baldur var á fundinum tók ég mér góðan labbitúr um miðbæinn og virti fyrir mér hús og híbýli Reykvíkinganna.
Ég hef í raun aldrei skoðað borgina á þennan hátt áður og upplifði mig hálfpartinn sem túrista í borginni. Það var frábær tilfinning og ég komst að því að ég kann miklu betur að meta borgina núna eftir þennan göngutúr. Við tjörnina hafði ég stuttan stans og virti fyrir mér stokkandaparið hér að neðan.
Í hádeginu fórum við Baldur síðan í Nauthólsvíkina að spila frisbí. Það var skemmtilegt að vanda en nokkuð hvasst og fátt um manninn. Við sáum um sex sólstóla uppá hól og Baldur sagði að um listaverk væri að ræða. Við stukkum upp á hólinn og prufuðum að sitja í þeim og mér fannst helst sem ég væri Gullbrá að prófa stólinn hans bangsapabba. Við sáum líka gamlar rústir frá stríðsárunum og tókum við myndir af herlegheitunum.
Eftir fornleifafræðirannóknirnar var farið í Laugardalinn og síðan upp í Þingás að kíkja á þá feðga. Þar hittum við fyrir Óla afa og Eygló frænku sem pabbi hafði boðið í grill. Núna erum við hins vegar að bræða með okkur að fara á ljósmyndasýningu í Straumsvík og hafa gaman af.