Við fórum á ljósmyndasýninguna í gær eins og talað var um og urðum yfir okkur hrifin. Sýningin var á vegum Fókuss, félags áhugamanna um ljósmyndun og var hún til húsa í Straumi í Straumsvík. Sýningin var ekki mjög stór, u.þ.b. 300 myndir, og vorum við tæpan klukkutíma að skoða okkur um. Það sem sumir þessara ljósmyndara eru færir! Og það sem margar þessara mynda voru fallegar!
Við bentum og hlógum í kapp við hvort annað eins og smákrakkar og skemmtum okkur konunglega. Ef maður ætti milljón væri ég til í að spanndera svona 100.000 krónum í sumar myndanna sem þarna voru til sýnis. Ég hvet alla eindregið til að fara, í dag er opið frá 13-21 en virka daga opnar ekki fyrr en kl. 17. Eitt enn: það er frítt inn.
Sýningin og labbitúr minn í gær blés okkur Baldri eldmóð í brjóst og létum við verða af einu því sem komið er á listann okkar yfir það sem við ætlum að gera í sumar. Við drifum okkur nefnilega í labbitúr um miðbæ Reykjavíkur og kölluðum við hann Húsin í bænum.
Við höfum jafnframt ákveðið að dreifa þessum Reykjavíkurtúrum á nokkra sunnudaga og taka fyrir ákveðin svæði í hverjum þeirra. Eitt aðalatriði þessara labbitúra okkar er að virða fyrir okkur gamla miðbæinn og þá sérstaklega húsin og garðana og upplifa stemmninguna. Myndavélin á auðvitað að vera með í för og markmiðið er að taka myndir af þeim húsum sem okkur finnast framúrskarandi að einhverju leyti. Í dag var sem sagt fyrsti hluti gönguseríunnar Húsin í bænum.
Við lögðum Nolla fyrir utan Aðalbyggingu Háskólans og röltum í átt að tjörninni. Á Tjarnargötu var strax margt húsa sem við vildum festa á filmu og hófumst við því ótrauð handa við að smella af. Túrinn tók síðan stefnu að Grjótaþorpinu sem mér finnst hreint út sagt dásamlegt. Mér finnst alveg eins og ég sé stödd í einni af barnabókum Astrid Lindgren og býst jafnvel við að sjá börnin í Ólátagarði koma hlaupandi á móti mér.
Þaðan gengum við um Bárugötu, Öldugötu og síðast en ekki síst, Ránargötu, en þar bjó ég í bernsku og sleit fyrstu barnsskónum. Ég man óljóst þá tíð, mér stendur ferskast í minni öll portin sem við krakkarnir lékum okkur í og þessi tilfinning að finnast maður vera í útlöndum þegar maður var staddur í einu þessara porta.
Eitt portið hafði til að mynda svaka flottan gosbrunn eins og maður sér í kvikmyndum sem eiga að gerast í borgum Ítalíu og ýtti það eflaust undir þessa exotic tilfinningu sem ég, barnið, fann fyrir í Ránargötu. Við Baldur gerðum heiðarlega tilraun til að finna þennan gosbrunn en eina portið sem við fundum var þakið spítnarusli. Ekki beint eins og mig minnti að þetta væri.
Frá Ránargötunni héldum við rúntinum áfram þangað til við komum að kaþólsku kirkjunni. Þangað hef ég aldrei stigið inn fæti enda ekki verið viss hvort ég, skírð til mótmælendatrúar, mætti slíkt og annað eins. Nú er öldin hins vegar önnur í mínum huga og við Baldur læddumst inn þöglum skrefum. Ekki voru margir á stjái, einn maður sat á bekk og virtist biðja og ein karmel nunna dittaði að kertunum. Við fórum einn hring um kirkjuna og virtum fyrir okkur málverkin og skoðuðum bæklingana sem lágu frammi. Að þessu loknu fórum við í almenningsgarðinn þarna rétt hjá og fengum okkur appelsínu og kex.
Endurnærð af nestinu héldum við göngutúrnum áfram, gengum nú um allar göturnar við Hringbraut og enduðum síðan á því að skoða Suðurgötukirkjugarð. Hann er alveg einstaklega yndislegur, allt er svo gróið og þar eru kyrrð og friður orð dagsins alla daga, alltaf. Ég hef aldrei vitað hve kirkjugarðar eru gott myndefni fyrr en nú. Ég stillti myndavélina á allskonar valkosti og reyndi jafnvel að taka mynd af köngulóarvef.
Við ákváðum síðan að enda túrinn á því að fá okkur malt og snikkers sem við og gerðum. Nú er stefnan hins vegar tekin á heimsókn til froskanna og jafnvel að renna aftur á ljósmyndasýninguna góðu í kvöld og reyna að draga pabba gamla með. Hann er jú áhugamaður um ljósmyndum ef einhver slíkur er til.