mánudagur, 13. maí 2002

564 jóladagur kveður

Uppstigningardag notuðum við til mjög praktískra hluta: við fórum yfir fjármálin. Við vorum ósköp dugleg, bjuggum til töflur í excel með lit og allt. Eftir miklar höfuðíbleytingar vorum við búin að telja upp öll atriði sem kosta okkur fjármuni og þá lá eyðsla mánaðarins fyrir okkur.

Taflan var ekki eins skemmtileg og við bjuggumst við og því tókum við á það ráð að eyða út ýmsum þáttum og lækka tölur hér og þar þangað til við töldum að ástandið væri orðið viðunandi. Eitt af því sem við eyddum af töflunni var heimilissíminn, 564 2512, og því tilkynnist það hér með að símanúmerið hefur verið lagt niður til frambúðar. Þetta þýðir reynda að við komumst ekki á netið heima en það skiptir í raun engu þar sem við nenntum aldrei á netið heima hvort eð var. Hver nennir að vinna með 56 kb nettengingu, mér er bara spurn?

Þennan sama dag, um kvöldið reyndar, fórum við í smá bíltúr um Suðurnesin. Við keyrðum m.a. að Kálfatjarnarkirkju og gengum um kirkjugarðinn. Kirkjan stendur nálægt sjó og því blés kaldan. Umhverfi kirkjunnar er mjög fallegt og það er eflaust frábært að vera þarna á sólríkum degi í logni og hita.

Frá kirkjunni keyrðum við til Voga á Vatnsleysuströnd. Bærinn er lítill og gróinn og fjarska notalegur. Það kom okkur á óvart hve mörg falleg hús voru á staðnum en mest um vert þótti okkur þó sú uppbygging sem virðist eiga sér stað á Vogum. Við keyrðum framhjá fjölmörgum húsum sem voru í byggingu og flest þeirra voru byggð úr forsteyptum einingum. Ætli þetta sé einhver tilraunastarfsemi, ég hef nefnilega aldrei séð þegar verið er að byggja hús úr forsteyptum plötum áður, hvað þá í svona miklum mæli?

Bærinn er vel þess virði að heimsækja og hefur núna bæst við á listann okkar yfir helgjarferðir um Ísland sumarið 2002.