föstudagur, 10. maí 2002

Eplasíder og Evrópa

Ekkert varð af hótun minni um að elda enn einu sinni egg og hrísgrjón í gær, við tróðum okkur nefnilega út annarsstaðar og það á kostnað annarra.

Klukkan fjögur hófst málþing um samrunaferlið í Evrópu og við mættum á svæðið. Þetta var ágætt framan af en undir lokin var maður orðinn ansi lúinn og þreyttur á allri þessari setu. Það sem hélt okkur þó á stólunum var loforðið um léttar veitingar í lok fundarins! Þessar meintu veitingar voru samlokur, hvítvín og eplasíder. Allt var þetta ljúffengt og hungrið léði veitingunum bragð sem kræfustu krydd eins og MSG gætu aldrei.

Eftir á gengum við út úr Aðalbyggingunni eins og fylltir kalkúnar og ekkert varð að eldamennsku það kvöldið. Í staðinn fórum við að bókasafnið niðri í bæ og tókum þar m.a. geisladiska með íslenskum hljómsveitum, svo sem Sálinni og Nýrri dönsk. Áform okkar eru að brenna þá og eiga þegar við komum til Köben til að geta tekið upp og spila þegar heimþráin sækir á.