Föstudeginum seinasta eyddum við að miklu leyti í lauginni enda afspyrnu gott veður. Við fórum síðan og sóttum Stellu uppá bókasafn því sumir höfðu verið að fá sér tíu dropa af einhverju öðru en kaffi og þurftu skutl heim. Við vorum í raun á hraðferð í föstudagspizzuna á Þingási en ílentumst hjá Stellu alveg til 22 um kvöldið því það var svo gaman að skrafa.
Við héldum þó seint en ekki svo hægt af stað í pizzuna og þar fundum við fyrir Öldu frænku frá Flórída og Sillu og Þórð, systkinabörn mín. Því miður, og ég undirstrika þessi orð, þá horfðum við á Djúpu laugina á Skjá einum sem allir vita að floppar feitt. Þessi þáttur var þó með afbrigðum sérkennilegur og við Alda frænka gátum varla horft á þáttakrílið fyrir skömm. Við höfðum þó lúmskt gaman af þessu og hlógum af þessari vitleysu sem vitleysingarnir létu út úr sér.
Laugardagurinn var einnig fjarska fagur. Við drifum okkur snemma af stað, þ.e. um hádegisbil, og fórum til pabba til að tæma skápinn minn áður en þeir gæjar flytja upp í Svínalind. Það styttist nefnilega óðum í að Grísalind verði húsum hæf og það sem skiptir enn meira máli er að fólkið sem ætlar að flytja inn á mitt æskuheimili ætlar að gera sig heimakært í byrjun júní.
Við vorum lengur að verkinu en á horfðist en létum það ekki aftra okkur í að fara í frisbí í garðinum eftir á. Pabbi og brósi slógust í hópinn og þetta var svo skemmtilegt að áður en við vissum af var klukkan orðin 15 og við þar með búin að missa af sundferðinni sem við ætluðum í áður en við færum að sjá Shaolin munkana.
Því drifum við okkur af stað upp á Digró og urðum að láta okkur nægja kvikk sturta. Síðan brunuðum við niður í Laugardalshöll og mundum eftir miðunum í þetta skiptið. Þá kom reyndar annað bögg uppá því við fengum ekki þau sæti sem við pöntuðum. Við tókum frá sæti fremst í stúkunni en viti menn, við enduðum í næst öftustu bekkjaröðinni.
Þetta eru mannleg mistök, aðilinn sem afgreiddi okkur virðist hafa ruglast eitthvað og því enduðum við lengst uppi í Laugardagshöll og ekkert of sátt við það hlutskipti. Sú fíla hvarf þó fljótt því sýningin var mjög skemmtileg. Ég var þó hrifnust af litla átta ára snáðanum sem var sem liðamótalaus.
Í byrjun sýningarinnar var tekið fram að atriðin á sýningunni mætti ekki gera heima hjá sér en fólk virðist ekki hafa tekið mikið mark á því ef eitthvað var að marka strákana sem við Baldur sáum á túninu fyrir ofan Höllina eftir sýningu. Þeir voru með prik í hendi og reyndu að herma eftir kung fu hreyfingum munkanna og stóðu sig hreint ekki svo illa.