mánudagur, 13. maí 2002

Tiltekt með meiru

Við vorum svakalega dugleg í dag þar sem við drifum okkur í vorhreingerningar. Þetta voru engar venjulegar vorhreingerningar get ég sagt ykkur heldur var hér um að ræða vorhreingerningar í anda Ásdísar og Baldurs.

Við byrjuðum á því að taka niður hillurnar sem Baldur keypti sér á gelgjunni því þær tóku allt of mikið pláss í okkar alltof litlu íbúð. Eftir það ákváðum við að tími væri kominn til að viðra mublurnar okkar og því drifum við allt út, stóla, kommóður, skó, fatnað, kött, spegla, bækur, geisladiska, ALLT.

Sem betur fer höfum við stóran garð til umráðu því búslóðin, þótt smá í sniðum sé, dreifði úr sér eins og slitti á heitum sumardegi. Eftir það var allt ryksugað og rúminu var þvælt til og frá svo ekki ein einasta rykarða kæmist undan.

Næsta skref var síðan að taka hverja bókina fyrir sig og hrista hana rækilega. Við notuðum tækifærðið og settum bækur í poka sem við viljum ekki kannast við. Pokann sendum við síðan í Góða hirðinn. Bækurnar voru ekki einar um að fá að fjúka, heldur fuku skópör og fatnaður einnig ofan í poka sem síðan verða sendir í Rauða krossinn eða til Hjálpræðishersins.

Eftir þennan stormsveip var íbúðin allt önnur, bjartari og rýmri. Ekki er heldur verra að ljóti stólinn, þessi rifni og þvældi eftir Kisu, er horfinn. Megi hann RIP.