mánudagur, 27. maí 2002

Hvað varð um okkur yfir helgina?

Seinast létum við víst í okkur heyra á fimmtudagseftiðmiðdaginn ef ég man rétt. Þennan sama eftirmiðdag fékk ég í hús seinustu einkunnirnar og síðan þá hefur ekki gefist nægilega rík ástæða til að þvælast hingað niður í Odda og kíkja á netið. Þar fyrir utan hefur dagskráin verið þéttskipuð.

Þennan áðurnefnda fimmtudagseftirmiðdag fékk ég, eins og áður sagði, seinustu einkunnir í hendurnar og niðurstöður vorannar 2002 eru eins og hér segir: Þjóðernishópar 9,0; Hagræn mannfræði 9,0 og Etnógrafía Eyjaálfu 9,5. Meðaleinkunnin var því um 9,2 og Baldur heimtaði að við héldum upp á það.

Til að verða við þeirri ósk fórum við á American Style og síðan í bíó að sjá mexíkönsku myndina Amores Perros. Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin árið 2001 og hlaut verðlaunin besta myndin á Cannes 2000. Ég las umfjöllunina um myndina á vef sambíóanna og varð meira en lítið hneyksluð því hver sá sem skrifaði þessa umfjöllun er greinilega ekki starfi sínu vaxinn. Hann er að lýsa í grófum dráttum söguþræðinum og fer með vitlaust mál, staðhæfir hitt og þetta sem er algjört bull. Þvílík vitleysa! Hvað sem öðru líður var myndin geggjuð.

Næst á dagskrá hjá okkur var að vinna í kosningunum. Við vorum í Kópavogsskóla og skiptum vöktunum þannig að við unnum tvo tíma og hinn sem vann með okkur á dyr vann tvo tíma. Í einni af þessum tveggja tíma pásum skruppum við í stúdentsveislunnar hennar Maríu frænku sem var að klára FG. Til hamingju elsku frænka! Þegar kjörfundi var lokið klukkan 22 fórum við yfir á Þingás og gláptum lítillega á kosningarsjónvarpið eða alveg þar til við fengum einhverjar tölur úr Kópavogi. Þá slökktum við og héldum heim á leið.

Nú virðist sem þessu mánaðarfríi mínu sé að ljúka því að öllum líkindum byrja ég að vinna á morgun eða hinn. Ég verð að vinna hjá prófessor uppí Háskóla, aðstoða við rannsóknir og hjálpa við undirbúning námskeiða. Ég hlakka sannast sagna mjög til að byrja og er komið með alveg nóg af því að vera í fríi og mega gera hvað sem mig lystir. Eftir viku eða svo á ég síðan eftir að líta á þessi orð mín og hugsa með mér: Nuts!