Gærdagurinn bar sterkt svipbragð undanfarinna daga og leið við sundlaugarbusl, frisbíkast, ljósmyndasýningar og kirkjusöng. Eftir að hafa hent græna disknum á milli okkar í dágóða stund á túni einu niðrí Laugardal var farið í sjálfa laugina.
Þaðan komum við frísk uppúr og héldum rakleitt uppá Bókhlöðu þar sem Baldur tók fyrir smá stærðfræði og ég skrapp á netið. Að því loknu fannst okkur upplagt að kíkja á útskrifarsýningu nemenda úr ljósmyndaskóla Sissu á Laugarveginum. Myndirnar voru allar svart/hvítar en að öðru leyti áttu þær fátt sameiginlegt þar sem viðfangsefni ljósmyndaranna voru ólík. Margar myndanna voru áhugaverðar en aðrar voru ekki eins skemmtilegar.
Klukkan 19:30 vorum við síðan mætt niður í Hjallakirkju í vorfögnuð. Það hefur víst verið siður þar á bæ að starfsmenn kirkjunnar og þeir sem að starfi kirkjunnar hafa komið hittist eitt vorkvöld, snæði saman málsverð, syngji og tralli saman.
Á borð var borinn mexíkanskur matur frá TexMex sem leit vel út í fjarlægð, þ.e. fjarska fagur, en þegar á reyndi var hann bragðlaus og óspennandi. Eftir átið hófust síðan skemmtiatriðin sem stóðu undir nafni. Presturinn sagði brandara við góðar undirtektir okkar hinna, kórinn tók lagið og allir sungu síðan saman undir lokin. Sem sagt hin besta skemmtun og ágætisbyrjun á vorinu.