Við fórum í gær í nýju búðina sem var að opna í Hálsunum, EuroPris kallast hún og er víst norsk verslunarkeðja. Þegar við mættum á svæðið var lífsins ómögulegt að finna stæði á efra planinu og því fórum við rakleitt í bílageymsluna. Þaðan gengum við síðan ótrauðum skrefum í átt að búðinni algjörlega grunlaus um hvað biði okkar þar.
Þegar inn var komið tóku við troðningar, hárreisti og hártog (smá ýkjur). Það var rétt eins og Íslendingar hefðu aldrei komið í stórverslun áður eða þá að þeir hefðu verið sveltir í langan tíma því slíkur var hamagangurinn í öskjunni. Við gerðum okkar besta við að tína til það sem þurfti til heimilisins og gekk það bærilega.
Í grænmetis- og ávaxtadeildinni fengum við eitt kíló af kartöflum frítt fyrir að kaupa eitthvað af grænmeti. Það var ágætisboð sérstaklega í ljósi þess að Baldur tróð án efa hátt á annað kíló í pokann. Reyndar er ekki hægt að áfellast hann fyrir það því engin vog var á svæðinu og því varð maður að láta sér nægja að taka kíló af innpökkuðum tómötum, vega það og meta og bera síðan þá þyngd saman við kartöflupokann. Ekki mjög nákvæmar rannsóknir það!
Ég veit að þetta hljóma frekar lítilfjörleg innkaup sem þau og voru en sannast sagna og þótt ótrúlegt sé þá tók það okkur örygglega um rúma klukkustund að tína þetta smotterí ofan í kerruna vegna troðnings og fólksmergðar. Reyndar spilar líka svolítið inní að við þekkjum búðina ekki svo vel og því tók það meiri tíma en ella að finna þetta helsta. Þar að auki er mjög auðvelt að gleyma sér í vöruúrvalinu þarna því ekki vantar að úr vöndu sé að velja. Svolítið annað en í Bónus þar sem þeir eiga aðeins svo og svo margar gerðir og típur af sömu vörunni. Við keyptum til að mynda sokka á mig sem okkur hefur aldrei hugkvæmst í Bónus. Nú sit ég því og skrifa, hæstánægð í nýju sokkunum mínum.
En svo ég haldi áfram með smjörið þá drifum við okkur í biðröðina og vorum í henni hátt í þrjú korter. Vöruverðið er ansi lágt hjá þeim sérstaklega í ljósi þess hve mikið úrval þeir bjóða uppá. Þar skáka þeir Bónus alveg. En hvað varðar þrengsli, pirring, hávaða og fjölda yfirliða (harhar) þá á Bónus öryggan sigur þar. Því liggur það ljóst fyrir að Digraneshjónin versla ekki mikið oftar í Europris nema þá helst á tímum stundarbrjálæðis.