fimmtudagur, 25. júlí 2002

Halda mýs að leðurblökur séu englar?

Þessa spurningu er að finna á Vísindavefnum góða. Að mínu mati er hún ekki fráleit, í raun er ég hiss að mér skildi ekki hafa hugkvæmst að velta vöngum yfir þessu líkt og spyrjandinn hefur augsjáanlega gert. Sjálf get ég ekki svarað slíkum vangaveltum en læt svar vísindamannanna á vefnum fylgja með til gagns og gamans.

Til að komast að raun um hvort mýs haldi að leðurblökur séu englar fékk Vísindavefurinn Félagsvísindastofnun til að gera skoðanakönnun meðal músa, og var hlutfallið milli húsamúsa og hagamúsa jafnt. Því miður fékkst engin niðurstaða út úr þessari könnun þar sem svarhlutfall var ekki marktækt. Ekki var hægt að hringja í mýsnar þar sem engin þeirra var í símaskránni og því var þeim send spurningin á blaði. En mýsnar átu bara blaðið í stað þess að svara spurningunni.

Því næst hugsuðum við okkur að beita eigindlegum rannsóknaraðferðum og vildum taka viðtal við mýsnar. Á lóð Raunvísindastofununar var búinn til ágætis sandkassi til að geyma mýsnar í á meðan verið væri að taka viðtölin. Fyrst voru fengnar 10 mýs og áttu 9 að bíða í sandkassanum á meðan fyrsta músin var tekin í viðtal. En þegar viðtalinu var lokið voru hinar 9 horfnar.

Til að þetta endurtæki sig ekki var haft samband við háskólaköttinn og hann beðinn um að hafa auga með músunum á meðan verið væri að taka viðtölin. Þetta gerði kötturinn af mikilli samviskusemi, en því miður af minni vísindalegri forsjálni. Mýsnar fóru vissulega hvergi, en því miður voru þær ekki vel til þess fallnar að taka þátt í vísindalegum rannsóknum eftir gæsluna.

Þá brá ritstjórn Vísindavefsins á það ráð að hafa samband við Heimspekistofnun og athuga hvort heimspekingarnir þar gætu komist til botns í því hvort mýs halda að leðurblökur séu englar. Eftir miklar yfirlegur og þunga þanka fengust loks þær niðurstöður að líklega halda mýs að leðurblökur séu englar.

Röksemdafærslur heimspekinganna voru á þessa leið. Fyrst var því velt upp hvort mýs haldi að leðurblökur séu hestar. En það þótti heldur fráleitt. Sennilega halda mýs bara að hestar séu hestar og alls ekki að leðurblökur séu hestar.

(1) Mýs halda að leðurblökur séu ekki hestar.

Næst fékkst það staðfest hjá Náttúrufræðistofnun Íslands að englar eru ekki hestar.

(2) Englar eru ekki hestar.

Og nú virtist ekkert því til fyrirstöðu að setja ‘englar’ í staðinn fyrir ‘ekki hestar’ í setningu (1) og fá niðurstöðuna:

(3) Mýs halda að leðurblökur séu englar.

Til að tryggja að ekki væri verið að draga ályktun í fljótfærni var málið rannsakað aftur og nú með tilliti til hunda. Á svipaðan hátt og áður var talið líklegt að

(4) Mýs halda að leðurblökur séu ekki hundar.

Auk þess var talið ljóst að

(5) Englar eru ekki hundar.

Og með því að setja ‘englar’ í staðinn fyrir ‘ekki hundar’ í setningu (4) fékkst svo niðurstaðan:

(6) Mýs halda að leðurblökur séu englar.

Eftir að hafa rannsakað málið með tilliti til strúta, flóðhesta, múldýra og ísbjarna, var niðurstaða heimspekinganna sú að yfirgnæfandi líkur væru á því að mýs haldi að leðurblökur séu englar.


P.s. Þess ber að geta að þetta er föstudagssvar og því ber ekki að taka hvert orð alveg bókstaflega.