Eftir sundið í gær vorum við ansi spræk, þ.e.a.s. mun hressari en við vorum fyrir sundið. Ég er reyndar búin að vera kvefuð og smá veik held ég hreint bara, því ég hef verið með beinverki og höfðuverk, kvillar sem hrjá mig ansi sjaldan. Hvað um það, sundið gerði okkur gott. Það var reyndar margt um manninn en ekki svo margt þó að ég þyrfti að bíða eftir skápi í tíu mínútur sem gerist iðulega á sólríkum dögum.
Sem við göngum út úr Laugardalslaug sjáum við konu með stóran píramída af kókómjólk við hlið sér. Við gerðum ráð fyrir að þetta væri ekki ein mamman með nesti fyrir ungana, né væri þetta einhver farandsalinn þannig að við mjökuðum okkur nær og viti menn, þessi kona bara rétti fólki sem átti leið hjá kókómjólk. Baldur læddist því nær og bað um tvær, takk.
Þegar hann kom til baka eins og lítill prakkari sá ég að þetta var einhvað alveg splunkunýtt, kókómjólk með jarðarberjabragði! Namm, það hlýtur að vera gott sögðum við og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. En fyrst var að borða nestið sem smurt hafði verið um morguninn og það gerðum við samviskusamlega. Eitt stykki rauð papríka, tveir tómatar, ein gulrót, ein appelsína og síðan fullt af kruðum með osti.
Við vorum nú ekkert svakalega södd eftir þetta allt saman enda með endemum hungruð. En við geymdum mynd af jarðarberjakókómjólkinni í hjarta okkar. Synd að þurfa að drekka hana bara beint og hafa ekkert til að jappla á með henni. Hmm.... Við drifum okkur upp í bakaríið í Álfheimum, Bakarinn á hjólinu heitir það víst og báðum um einn snúð með karamellu, takk. Síðan skoppuðum við út í sólina og gæddum okkur á karamellusnúð og jarðarberjakókómjólk. Það var ógesslega gott :)