Ég hef verið að lesa mér til um hin ýmsu fyrirbæri veraldar á Vísindavefnum. Þessi vefur er hreint út sagt bráðskemmtilegur en þá ályktun get ég dregið út frá því hve vel ég hef skemmt mér við að lesa þá pistla sem þar er að finna!
Ég var að enda við að lesa mér til um hæsta mann veraldar og gat ekki annað en glott út í annað yfir kaldhæðni heimsins. Nú sjá flestir Kínverja fyrir sér sem litla og lágvaxna, feita og lágvaxna, gula og lágvaxna, hvað sem er, þeir eru lágvaxnir. Það skondna er þó að hæsti maður veraldar er Kínverji. Á Vísindavefnum segir: "Hæsti maður í heimi heitir Wang Fengjun frá Kína en hann er meira en 2,5 metrar á hæð. Fengjun er 22 ára og á að fara í aðgerð sem á að fá hann til að hætta að stækka. Aðrir spítalar hafa neitað að framkvæma þessa aðgerð af því að hún ku vera of hættuleg."
Fyrir utan þennan mjög svo gagnlega fróðleik um hæsta mann veraldar, sem mun án efa nýtast mér í leiðinlegum fjölskylduboðu, hef ég þar að auki fræðs um mannát Kelta, meðgöngu fílsunga, hvað veldur hiksta, hver bjó til íslenska fánann, hvort börn fæðist með fæðingarbletti, hver byggði píramítana, hvort tómatur teljist til ávaxta eða grænmetis, hvað húsfluga hefur margar tær (vitanlega enga einustu), hvað fúnksjónalismi sé, hvers vegna grísir séu tákn sparnaðar sem sparibaukar og síðast en ekki síst um það hversu oft þyrfti að margfalda fólksfjölda Íslendinga til að fá út fólksfjölda Kínverja.
Svarið við þeirri síðustu sýndi mér svart á hvítu hversu fámenn við erum þar sem fólksfjöldinn í Kína er 1.227.740.000 og 282.845 á Íslandi. Með smá útreikningum verður ljóst að Íslendingar yrðu að vera 4340,6813 sinnum fleiri til að jafngilda fólksfjöldanum í Kína. Til að strá salti í sár þjóðrembu minnar fyldi lítil mynd sem sýndi muninn á Kínverjum og Íslendingum. Væru Kína og Ísland sitthvor maðurinn væri Ísland minnsti dvergur veraldar, flatur og já, nær ósýnilegur.