Þá loksins lætur maður heyra í sér. Það er orðið svo langt um liðið að maður kíkti á bloggerinn að lykilorðið er farið að fölna í minninu. Mér tókst þó að komast inn, svo gleymin er ég í rauninni ekki. Í rauninni tel ég mig alls ekki gleymna manneskju. Hvað um það, það er ekki eins og ég hafi beint tíma til að sitja og blaðra um gleymsku mína. Ég er nefnilega svo á kafi í annríki að annað eins hefur ekki sést langa lengi (smá ýkjur). Ég er á fullu á lokaárinu mínu í mannfræði og er farin að undirbúa skrif á lokaritgerðinni minni. Síðan er ég þar að auki að taka fjóra kúrsa og vinn á tveimur stöðum, þ.e. Háskólanum og Gallup. Er ég geðveik eða er ég geðveik?
Einn kúrsinn, Trú og tákn, er ósköp þægilegur og hefðbundinn. Maður les bókina, mætir í tíma og glósar af lífi og sál, síðan gerir maður eitt stykki fyrirlestur og eitt stykki ritgerð og tekur síðan próf fyrir jól. Sama gamla sagan.
Síðan er ég í lesnámskeiði og það er aðeins nýstárlegra fyrir mér því ég hef aldrei tekið slíkt námskeið áður. Þá er maður algjörlega sjálfs síns herra og velur sitt eigið námsefni sjálfur og jafnvel einingafjöldan líka. Og kennarann líka (það er það góða). Ég valdi mér eina ritstýrða bók sem ég mun án efa nota mikið í BA ritgerðinni og er búin að lesa hana svona ágætlega. Það sem ég geri síðan næst er að velja nokkrar greinar úr bókinni, fjalla um þær og draga úr þeim þær upplýsingar sem mér finnst skipa máli, set það saman í netta ritgerð og skila til kennara. Tvær einingar takk. Ekki svo óhefðbundið en reynir meira á manns eigin sjálfstæðu vinnubrögð.
Þriðji kúrsinn er síðan inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum en slíkar rannsóknaraðferðir hafa átt vaxandi fylgi að fagna innan félagsvísindanna á undanförunum áratugum. Í þeim kúrs á ég að gera mína eigin rannsókn á því viðfangsefni sem ég hef áhuga á. Ég er nú þegar búin að skila inn rannsóknaráætlun og hafa samband við þrjá aðila sem vonandi verða mínir tengiliðir og hjálpa mér að komast í kynni við viðmælendur. Ég vel síðan þrjá viðmælendur og tek opin viðtöl við þá sem ég síðan afrita og greini. Þetta er þvílík vinna og oft er erfiðast að finna fólk sem viljugt er að taka þátt í rannsókn manns. Ég er þó strax búin að fá svar við einu bréfanna sem ég sendi út og það var mjög jákvætt. Ég ætti því ekki að hafa of miklar áhyggur af því.
En þá kem ég að síðasta námskeiðinu sem er það allra skrýtnast, námskeið sem á ekki sinn líka í minni skólagöngu. Það er tveggja eininga námskeið sem kallast Vettvangsferð þar sem farið er í eina viku til Kulusuk í Grænlandi (Kalaallit Nunaat). Þetta er námskeið ætlað mannfræðinemum en er í raun opið öllum. Það er því mikið um að fólk úr öðrum greinum taki kúrsinn en sleppi einingunum. Það gerum við stelpurnar í Verð að skilja hins vegar ekki og því verður okkar dvöl námslegs eðlis (svona hluta tímans allavega). Við eigum að gera athugun á hverju því sem við höfum áhuga á og skila niðurstöðu í lok annar. Þetta verður eflaust þvílíkt gaman og ég hlakka mikið til að fara.
Jæja, þá er ég aldeilis búin að borga bloggernum mína skuld. Nú getur hann farið að kvabba í Baldri.
P.s. Ég fer til Grænlands á morgun, óskið mér góðrar ferðar!