mánudagur, 28. október 2002

Lestrarhestur eða bókaormur?

Á föstudaginn fékk ég mína fyrstu einkunn á önninni. Þetta var nú ekkert svaka merkilegt, bara eitt af verkefnunum í eigindlegum. Hvað um það, ég skilaði inn ritdómi og fékk A+ fyrir mjög vönduð vinnubrögð. Mig langaði nú aðeins að halda upp á þetta en þar sem ég var að fara að taka viðtal seinna um daginn varð ég að fresta því aðeins.

Seinna um kvöldið vildi Baldur síðan bjóða mér upp á ís til að halda upp á herlegheitin en ég hafði enga list á ís og sagði því pent nei takk, ég vildi miklu fremur fara bara heim, skríða upp í rúm og lúra með bók. Ég er nefnilega bókaormur fram úr hófi. Eða kannski ég ætti að segja lestrarhestur fyrst ég var að minnast á hóf...

Baldur varð auðvitað við óski minni en eflaust hefur hann verið svolítið súr því hann var örugglega farinn að hlakka til að smjatta á ísnum. Ég hélt síðan uppteknum hætti á laugadeginum og las áfram þangað til ég hafði lesið bókina spjaldanna á milli. Nú voru góð ráð dýr, en ekki svo dýr þó að ég fór bara í bókahilluna og tók þar fram Híbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson. Ég hafði byrjað á henni áður og klárað fyrstu 20 síðurnar en síðan lagt hana frá mér og hreinlega gleymt greyinu. Annað var þó upp á teninginn núna og ég er alveg að verða búin með bókina. Sem betur fer á ég Lífsins tré því ég er ekkert sátt við að fyrra bindið sé að klárast. Þessi saga er svo skemmtileg og vel skrifuð að bara íslenskunnar vegna ætti maður að lesa söguna. En ég les hana hins vegar sögunnar vegna, þetta er nefnilega svo óskaplega fyndið á köflum. Grey Íslendingarnir, þeir voru nú óttalegir lurar.