Hér er ég, júhú. Ég hef nú verið frekar latur við bloggið eins og lesendur hafa vafalítið orðið varir við. Síðast þegar ég skrifaði var ég eitthvað að gaspra um próf í stærðfræðigreiningu. Skömmu eftir gasprið varð ég veikur og gat því ekki mætt í prófið.
Næsta mál á dagskrá eftir prófið var tónleikamessa í Hjallakirkju sem ég ætlaði að auglýsa hér, en ég komst ekkert upp í skóla sökum veikinda. En á sunnudagsmorgninum drattaðist ég í kirkjuna og misþyrmdi raddböndunum (var með hálsbólgu) með messu í C eftir Mozart. Það gekk nú furðuvel miðað við sjúkrasöguna hér að ofan.
Það er nú ekki hægt að segja annað en að Mozart hafi verið snillingur og finnst mér það vera vægt orð til að lýsa honum. Þvílíkur gaur! Reyndar skilst mér að hans rétta nafn sé Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart. Til fróðleiks bætti ég inn smá Mozart hlekk
Eftir að lífverðir mínir höfðu komið mér frá trylltum lýðnum í tónleikasalnum buðu Pétur afi og Stella amma mér og Ásdísi út að borða á hótel Sögu. Það var ferlega gaman og af því að ég var í svörtum jakkafötum þá hélt eitthvað fólk að ég væri þjónn og spurði mig hvernig súpa væri á boðstólnum. Ég svaraði eins og þjónn og sagði þeim að það væri humarsúpa. Þá vildu þau vita meira en þá vildi ég ekki vera þjónn lengur og sagði þeim að ég væri gestur og að þau yrðu að tala við þjónana. Af Sögu sneru svo allir saddir og sælir heim á leið í síestu.
Nú síðan þá hef ég verið að læra og svo hef ég reynt að læra smá. En á laugardagskvöldið síðasta lærði ég ekki. Ég glápti á dvd með Ásdísi og borðaði hollan mat. Myndin sem glápt var á heitir Rosemary´s baby og er eftir Polanski. Mæli með henni.