Við Ásdís vorum að koma úr tvöföldu afmælisboði frá Stellu og Kristjáni. Stella á afmæli í dag en Kristján átti afmæli fyrir fimm dögum. Til hamingju með afmælin kæru hjón!
Í morgun var ég í verklegri eðlisfræði að gera ljóstilraunir og að þeim loknum lagði ég af stað heim en komst ekki alla leið sökum yfirþyrmandi einmanaleikatilfinningar. Ég veit ekki hvernig ég á að segja það en ég læsti einn af mínum bestu vinum inni á tilraunastofu og lagði svo af stað heim.
Umræddur vinur losnaði svo ekki úr prísundinni fyrr en núna rétt áðan. Það er þó engin ástæða til að örvænta um vinskapinn því kaffibollar virðast vera fljótir að fyrirgefa.