Já nú er maður kominn heim frá útlöndum. Undanfarnir dagar hafa farið í að skræla mig eins og appelsínu og er það sérdeilis sniðugt sport, í það minnsta hentar það vel sem hliðaráhugamál ef manni finnst gaman að snorkla við franskar strendur í hitabylgjum.
Það er nú alveg þrælgaman að snorkla þarna úti og hefi ég ákveðið að leggja drög að bókinni Synt með sardínum og má búast við að hún veiti bókinni Dansar við úlfa harða samkeppni í njólabókaflóðinu sem er væntanlegt seinna.
En þó svo að það sé gaman á erlendri grund með folöldum, sardínum, úlföldum, hekkmorðingjum, uppstoppuðum hundum, Geirmundi Heljarskinni og öllu því ágæta sem þarna er að finna þá finnst mér alltaf yndislegt að komast aftur í kexverksmiðjuna.