Á föstudaginn eftir vinnu fórum við beinustu leið upp í Munaðarnes ásamt Elfari, í samfloti voru Andri og Sigrún. Strax og þangað var komið var kveikt í kolum og byrjað að elda. Útkoman var vægast sagt frábær: salat, smjörsteiktur silungur, grillaðar bakaðar kartöflur og frábær smjör og rjómasósa. Lítið man ég hvað gerðist meira það kvöld sökum matarvímu.
Á laugardeginum var sofið út og farið í smá gönguferð + sundferð (ég synti 1000 m), svo var slappað af eins og lög gera ráð fyrir. Eftir slökun gerðum við svo það sem allt fólk í sveitasæluslökunarsumarbústaðarferðum gerir, við fórum niður í bæ og fylgdumst með menningarnótt Reykjavíkurborgar.
Vingsuðumst í gegnum bæinn, droppuðum í Fóu feykirófu og héldum svo á afmælistónleika Rásar 2 þar sem við sáum Sálina hans Jóns míns og Stuðmenn. Hljómsveitir sem klikka ekki. Eftir flugeldasýninguna fórum við aftur í sveitasæluna.
Sunnudagurinn lofaði góðu strax um morguninn með glampandi sól og dúnalogni. Ekki dugði að hanga inni á slíkum degi. Við ókum c.a. 9 mínútna frá Munaðarnesi þar til við komum að skilti sem á stóð Glanni Paradís. Þar beygði ég og við skoðuðum fossinn Glanna, lögðumst í bláberjaát og reyndum að finna Paradísarlaut. Það mistókst, að ég held. Að lokinni göngunni var svo byrjað að undirbúa enn aðra veislu og var hún ekki síðri en sú fyrri.
Ég gleymi aðalatriðinu! Agh! Það var ekki eitt heldur allt með því að við dveldum þarna. Það var nefnilega hægt að hækka og lækka alla eldhúsinnréttinguna (komplett með skápum og allegræ) með rafmagnsstýringarjúniti, ég legg ekki meira á þig lagsmaður.