mánudagur, 15. mars 2004

Liggaliggalái

Fjóla í Baunaveldi var að lýsa ánægju sinni yfir því að loksins væri komið vor þar um slóðir - það þýðir að loksins fór hitastigið yfir frostmarkið. Ég segi nú hí á Baunana því við erum búin að vera í vorfíling í allan mars. Í morgun tók ég til að mynda eftir því að grasið er farið að grænka á túnum hér í kring. Í þessu tilviki er leyfilegt að vera með smá aulahúmor og segja að nú sé grasið bókstaflega grænna hinum megin, thíhí.

Annars er allt ljómandi fínt að frétta af mér enda ekki annað hægt þegar daginn er tekið að lengja svo að nánast er orðið bjart klukkan sjö á morgnana. Ég er núna komin í það sem ég kalla annan helming annarinnar þar sem fyrri helmingurinn einkenndist af vikulegum verkefnaskilum, framsögum og fleiri verkefnum.

Þessi síðari helmingur samanstendur af ritgerðum sem ég þarf að klára, fjögur stykki, og er ég um þessar mundir á fullu að lesa heimildir. Ég hef sankað að mér bókum og greinum og er nú svo komið að ég hef að ég held tæplega 20 bækur á skrifborðinu sem ég ætla að lesa misvel og misvandlega. Það er því heljarinnar törn framundan og sem betur fer er ég að fara að vinna að áhugaverðum ritgerðum.

Áður en ég sný mér að þessari törn ætla ég þó út að hjóla smá, veðrið bíður bara ekki upp á neitt annað.