Dagurinn sem hófst á ansi góðri lyftingaæfingu og góðri kynningu á starfi UNIFEM á Íslandi hefur ekki náð að halda sama flugi og á við engan annan en mig að sakast í þeim efnum. Ég nennti nefnilega ekki að læra uppí í Bókhlöðu í dag - fannst vera of mikil umhverfishljóð - svo ég rölti heim og ætlaði mér að læra af krafti þar.
Ég veit ekki hvaða lygasögu ég sagði sjálfri mér í Bókhlöðunni en svo er víst að ég hef ekki lært hót eftir að ég kom heim. Þvert á móti, ég hef hangið á netinu lesandi gamlar dagbókarfærslur. Eins gaman og það var nú er ég ansi hrædd um að það hjálpi mér ekki í ritgerðarskrifum sem bíða nú og eru enn brýnni en áður.
Dagurinn er þó ekki að kveldi kominn og enn er von að úr honum rætist. Þá á ég þó ekki við lærdómslega séð heldur frekar svona í tengslum við mannsleg samskipti og félagslegt mingl. Okkur snöffuls er nebbla boðið til kvöldverðar hjá herra og frú Karli og Ólöfu. Þau unnu víst í einhvers konar happdrætti og fengu ekki vinning af verri endanum: kokkur kemur til þeirra í kvöld og eldar ofan í átta manns. Óóó, það verður gaman að sjá hvað hann hristir fram úr erminni - ég er sko búin að borða sem minnst í dag og er því orðin ansi svöng.