Já, í dag var ég næstum orðinn stoltur eigandi nýs fjallahjóls, 26" og 21 gíra. Við sáum nefnilega fjallahjól auglýst í Bónus á mjög svo viðráðanlegu verði og drifum okkur því að kíkja á þau. Hjólin reyndust vera ágæt - allavega nógu góð fyrir mig - svo eftir miklar athuganir festum við kaup á einu þeirra.
Það var þó ekki fyrr en við komum út með gripinn að við uppgötvuðum okkur til mikillar armæðu að hjólið virtist vera hannað fyrir frekar smávaxið fólk því hnakkinn á hjólinu var aðeins hægt að hækka um nokkra sentimetra. Ekki er ég nú mjög hávaxin manneskja en þó greinilega of löng fyrir hjólið því þrátt fyrir að við settum hnakkinn í hæstu stillingu reyndist það ekki nóg.
Við urðum því að skila því og nú er ég enn sem áður hjólalaus. Ég held þó að Baldur sé svekktastur því hann veit hvað þetta þýðir: Ég fæ hjólið hans á meðan hann fær að skottast á mínu eldgamla, níðþunga fermingarhjóli.
Jæja, má ekki vera að þessu, verð að fara að glápa á Friends. Við vorum að enda við að horfa á síðasta þátt níundu seríar og það þýðir bara eitt, við verðum að horfa á næsta þátt!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli