mánudagur, 7. júní 2004

Sjómannadagurinn

Við byrjuðum þennan ágæta sjómannadag á því að slá grasið hjá Pétri afa. Þrátt fyrir að Stella Soffía hafi komið og hjálpað okkur veiddum við engan túnfisk (hihi). Eftir sláttinn var við hæfi að þvo sér og þar sem sólin skein skært lá beint við að skella sér í sund, sem við gerðum. Það var reyndar engin tilviljun að við og Stella værum öll stödd á sama stað, á sama tíma með sunddót. Nei þetta var sko planlagt.

Eftir laugarbusl og heimsókn á bókasafn Kópavogs lá leið okkar niður í bæ. Þegar við vorum komin niður að Tjörn sáum við nokkrar einstæðar mæður af busl- og kafandastofni, nánar tiltekið stokkandar- og æðarkollur, og var ein þeirra með 13 unga. Þessum fuglum ásamt nokkrum frábærum gæsum og álftum gáfum við eitt kíló af brauði.

Þá gengum við á Austurvöll þar sem var gríðargóð stemning og fullt af fólki. Þar tjilluðum við um stund en skutumst á höfnina til að skoða dauða fiska í klakafylltum fiskikörum. Þarna voru ýmsar tegundir sem ég hafði ekki barið augum fyrr ásamt gamalkunnum félögum. Tvö fiskinöfn koma strax í hugann og eru það urrari og bjúgtanni. Eins og þetta eru voldug nöfn þá voru þetta pínulitlir fiskar, bjúgtanninn var minni og ljótari.

Þegar þarna er komið sögu ákváðum við að fara í bókabúð og eins og venjulega fórum við út með meira heldur en við komum með inn. Ég fann nefnilega eitt stykki Kjartan á tilboði. Tilboðið var: Fáðu einn Kjartan og far heim fylgir með. Hver getur hafnað svona yfirnáttúrulegu tilboði? Mér er spurn.

Engin ummæli: