sunnudagur, 12. september 2004

Ferðasaga fyrsti hluti

Á föstudaginn keyrðum við í svo að segja einu hendingskasti austur í Skaftafell. Þar stöldruðum við, fórum í gönguferð að Svartafossi og nærðumst. Þegar við vorum að renna úr hlaði kom Einar, vinur okkar úr háskólanum, hlaupandi inn í sviðsmyndina. Það kom sér vel að hitta hann þarna því hann er þaulkunnugur svæðinu og gátum við spurt hann út í leynileið sem Pétur afi benti okkur á fyrir ferðina. Hann kvað þá leið mjög góða.

Eftir að lagt var af stað úr Skaftafelli keyrðum við þjóðveg 1 þangað til komið var inn í botn Berufjarðar. Þar fylgdum við leiðbeiningum um leynileið og beygðum upp á veg sem liggur um Öxi. Það var skemmtileg leið um stórbrotið landslag og svo er hún líka helmingi styttri en venjulega leiðin. Þegar þarna er komið við sögu var nokkuð farið að rökkva og þegar við vorum komin á tjaldstæðið í Atlavík var orðið aldimmt. Okkur tókst þó að tjalda án teljandi stóráfalla og létum súpu hitna á meðan.

Framhald í næsta þætti, danndanndann-dannnn...

Engin ummæli: