Þá er komið að framhaldi dýragarðsfærslunnar úr síðustu viku. Við kíktum nefnilega í dýragarðinn í gær, bæði af því að það var kjörið svona á sunnudagseftirmiðdegi og líka af því að við vildum ná myndum af nýja ísbirninum.
Þegar við vorum nýkomin í garðinn mættum við einum starfsmanni með hjólbörur. Í hjólbörunum var fótur og afturhluti af einhverju klaufdýri og skein í rautt kjöt og gulan fituvef. Við eltum manninn og fylgdumst með því þegar hann gekk beinustu leið inn til úlfanna og sturtaði þar fætinum af börunum.
Það var mjög merkilegt að fylgjast með viðbrögðum úlfanna, þeir virtust hræddir við hjólbörumanninn og héldu sig í góðri fjarlægð frá honum. Þeir titruðu af æsingi og stukku trekk í trekk út í skítugt vatnið sem tilheyrir þeirra svæði.
Sérkennilegt nokk snertu þeir þó varla á fætinum og á meðan við fylgdumst undrandi með þeim skokka í kringum skrokkinn, hlustuðum við á annan starfsmann útskýra fyrir gestum og gangandi að dýragarðurinn fengi gefins veðreiðahesta sem væru orðnir of gamlir eða hefðu slasað sig á veðreiðabrautinni. Fóturinn var sem sagt af einu slíku hrossi.
Þegar við vorum komin með leið á að fylgjast með furðulegu háttarlagi úlfanna heilsuðum við upp á ísbjörninn sem líka hafði nýlega verið fóðraður. Þar var hins vegar ekkert hrossakjöt á boðstólum heldur ekta danskt rúgbrauð og síld sem litla ísbirnan gæddi sér á með ánægju.
Það sem helst stóð upp úr þessari dýragarðsheimsókn var að fylgjast með þegar sæljónin voru tamin og fóðruð. Þjálfarinn lét þau sækja bolta og fara í kollhnísa og fyrir hvert velheppnað atriði voru þau verðlaunuð með fiskibita. Miðað við hversu hlýðin þau voru minntu þau frekar á hunda en ljón svo kannski sæhundar væri meira viðeigandi?
Góðu fréttirnar eru síðan þær að nú erum við búin að heimsækja dýragarðinn þrisvar en þrjár heimsóknir jafnast á við eitt árskort. Svo nú getum við heimsótt garðinn frítt, jáhérna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli