mánudagur, 21. nóvember 2005

Jóladýrð í Tivoli

Þegar tekið var að rökkva í gær kíktum við ásamt PG í jólatívolí. Þar var margt um manninn og mikil ljósadýrð. Íshöllin var uppljómuð og þar að auki stóð franskur ljóskastarameistari að því að varpa á hana ýmsum myndum sem gáfu henni dulúðlega ásjón.

Meðfram öllum göngustígum hafði logandi kyndlum verið stungið niður og fyrir ofan stígana hengu grenigreinar og ljós. Grenilykt fyllt loftið ásamt lágværri jólatónlist. Út við tjörnina lágu ljósaseríur ekki svo í leyni og trjákrónur sem drúptu yfir vatninu voru þaktar þúsund ljósum. Kristalstréð var mergjað í ísblárri birtunni sem stafaði af því.

Inn í jólasveinalandi (Nissekøbing) var að finna ævintýraland fyrir stóra jafnt sem smáa. Þar sveif kátína yfir vötnum og undrin blikuðu í augum gesta. Og svo sem ekki við öðru að búast þar sem hægt var að finna undir sama tjald allt sem mögulega gæti tengst jólunum: jólasveina, jólameyjar, grenitré og snjó, ljós, notalega kofa, mörgæsir, ísbirni, fiska, hreindýr, refi og skíðalyftur. Danir tengja greinilega ýmislegt fleira við jólin en við Íslendingar.

Eftir góðan túr um jólatívolí hittum við síðan Elínu og co. á veitingastaðnum Balkonen þar sem við gæddum okkur á dönsku jólahlaðborði innan um nær eintóma Íslendinga.

Að loknu svona jólalegu kvöldi komst aðeins eitt stef að hjá mér:

Ljósadýrð loftin gyllir
lítið hús yndi fyllir
og hugurinn heimleiðis leitar því æ
man ég þá er hátíð var í bæ.

3 ummæli:

Móa sagði...

en ævintýralegt í kóngsins! vantar bara snjóinn svona til að fullkomna þetta. Er með snjó á heilanum, en kveðja héðan þeir eru eitthvað að reyna gera jóló hér líka.maó

Nafnlaus sagði...

Það er aldeilis komið líf í bloggið í Köben.
islendingen

ásdís maría sagði...

Já, það er svo miklu skemmtilegra að blogga en að ekki-blogga.