Í dag hringdi dyrabjallan tvisvar. Ég held að það sé algert met síðan við komum hingað til Danmerkur. Fyrri hringingin var frá UPS-sendli sem færði okkur nýjan aflgjafa í tölvuna, jesss. Sá gamli gaf sig nefnilega með látum fyrir nokkru síðan, nánar tiltekið með hvelli.
Þegar pappi og bóluplast hafði verði fjarlægt af nýja, fína aflgjafanum var ekkert annað að gera en að skella honum í tölvuna. Það tókst svona líka vel og nú er tölvan eins og ný og ekki nóg með það, mér líður eins og endurfæddum tölvunerði.
Seinni dyrabjölluhringingin kom frá einhverjum sem var á leiðinni í gítartíma. Þar sem hvorugt okkar telur sig neinn sérstakan snilling á því sviði varð ég að segja viðkomandi að hann hlyti að hafa hringt rangri bjöllu. Vona að hann hafi fundið gítarkennarann sinn. Þar sem seinni hringingin var eiginlega ekki til okkar er kannski spurning hvort um raunverulegan metdyrabjölludag sé að ræða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli