Þá eru bækurnar þrjár sem mér áskotnuðust um jólin allar upplestnar. Ég las fyrst Hrafninn eftir Vilborgu Davíðsdóttur og þrátt fyrir áhugavert sögusvið fangaði sagan mig ekki sem skyldi.
Bókin sem ég las þar á eftir, Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini, heillaði mig hins vegar upp úr skónum. Bæði er sögusviðið, Afganistan á 7. og 8. áratugnum, mjög spennandi en auk þess er eitthvað svo óumdeilanlega væntumþykjanlegt við aðalpersónur sögunnar. Ég vil þó ekki slá ryk í augu neins, bókin er nefnilega líka afskaplega átakanleg.
Síðasta bókin sem ég las var Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur. Þar er á ferðinni saga sem hélt mér fanginni svo ekki kom annað til greina en að lesa langt fram á nætur. Mér fannst plottið nefnilega alveg ágætt og allur sögulegi fróðleikurinn líka en samtölin fundust mér skemmtilegust.
Inn á milli bókalesturs höfum við spilað óhóflega oft Settlers, svo oft reyndar að við erum komin með eigin reglur. Það er nefnilega ekki nærri eins spennandi að spila bara tvö svo við höfum reynt að gera leikinn meira krassandi.
Á heimilinu ríkir sem sagt mikil ró og hefur okkur tekist að slappa af út í eitt. Þannig á það líka að vera á jólunum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli