Um daginn horfðum við á hina óviðjafnanlegu E.T. Við það tækifæri minntist Baldur þess að hafa átt E.T. dúkku sem Pétur frændi hafði gefið honum.
Ég gerðist nú aldrei svo fræg að eignast E.T. dúkku en í dúkku- og bangsasafni mínu var hins vegar að finna einn Gremlingsbangsa. Ég hafði gaman af honum og leit á hann sem hluta af bangsasafninu mínu. Það átti þó eftir að breytast. Eitt kvöld var barnapían að horfa á Gremlings 2 sem var bönnuð innan 12 ára og ég læddist inn til að kíkja á. Ég þurfti endilega að sjá atriðið þar sem allir Gremlingsarnir eru breyttir: slímugir, slóttugir og hræðilegir!
Viðmót mitt gagnvart Gremlingsbangsanum breyttist varanlega eftir þessa upplifun. Á hverju kvöldi, eftir að hafa raðað böngsum og dúkkum á lak og breytt teppi yfir, var Gremlings stungið inn í skáp - svona til öryggis.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli