Árið 2006 hóf göngu sína afskaplega vel. Það byrjaði að sjálfsögðu í nýárspartýinu góða sem við yfirgáfum ekki fyrr en undir morgun. Þar sem við vorum svo seint á ferð var næturvagninn okkar N81 hættur að ganga en dagvagninn okkar 5A ekki byrjaður að ganga. Við urðum því að fara krókaleið heim.
Við gengum út í Amagerbro st til að taka M2 metróleiðina til Nørreport st. Margir voru á ferli, svo margir raunar að það hefði allt eins getað verið síðla dags og fólk á þönum eftir vinnudaginn. Þegar við rúlluðum niður í metróið urðum við síðan enn meira undrandi, þar var urmull af fólki á leið sinni heim á nýju ári.
Á þeim stutta tíma sem við þurftum að bíða eftir M2 tókst mér að ná mynd af nýárskveðju til farþega sem birtist á öllum tímatöflum metrósins. Ósköp fannst mér þetta huggó og danskt.
Frá Nørreport st tókum við síðan s-toget til Ryparken og enn annað s-tog til að bera okkur síðasta legginn af leiðinni að Nørrebro. Þaðan röltum við síðan heim, sátt við hve þessi krókaleið hafði mikinn ævintýraljóma yfir sér.
Nýársdag löguðum við síðan kraftmikla cous-cous súpu með harrissu til að byrja árið af krafti. Við leigðum einnig alla Hringadróttinssögu eins og hún leggur sig og horfðum á hana næstu tvo daga. Við höfðum einmitt einsett okkur að rifja upp kynni okkar af henni á nýju ári svo nú getum við með góðri samvisku strax strikað út eitt atriði af Gátlista Ásdísar & Baldurs 2006.
Það er því ekkert nema gott að segja um það sem af er ári.
3 ummæli:
Þið byrjið árið aldeilis vel. Þessi framtakssemi hlýtur að boða gott :)
Gleðilegt nýtt ár elsku vinir og hafið það sem allra best á nýja árinu. Vona að ég hafi sent jólakortið á rétt heimilisfang í Danaveldinu : ) kveðja María og co.(Já vona að þú hafir líka fengið smsið á afmælinu þínu Ásdís ; )
Ég vona svo sannarlega að framtakssemin ásamt kraftmikilli cous-cous súpunni boði gott og kraftmikið ár enda stefnt langt á árinu svo það er vissara að endast ;)
Takk María og co fyrir æðislegt jólakort. Reyndar fékk ég ekki sms-ið en nú veit ég allavega af því, eflaust í einhverjum ókunnugum gemmsa, með eigandann klórandi sér í hausnum yfir því, harhar :0)
Skrifa ummæli