fimmtudagur, 23. febrúar 2006

Nettó-löggan

Ég varð vitni að sérkennilegu atviki á leiðinni heim úr ræktinni í gær. Ég stóð með hjólið mitt við rautt ljós, við hlið mér er par sem ég veitti nokkra athygli fyrir einhverjar sakir sem ég get ekki skilið. Eflaust var það þó af því maðurinn stendur þarna tuðandi ofan í bringuna á sér, ég skildi þó minnst af því.

Allt í einu birtast þrjú ungmenni mér við hlið, merkt Netto versluninni í bak og fyrir og taka að tala við manninn. Mér heyrist þau segja manninum að hann geti ekki gengið út með vörur sem hann hefur ekki greitt fyrir og tek ég þá eftir því að hann heldur á Netto poka. Þau biðja hann að skila pokanum og koma með sér inn í búðina en hann neitar staðfastlega og segist ekki hafa gert neitt rangt.

Ungmennin virðast ekki vita hvernig höndla eigi aðstæður sem þessar og tvö þeirra hverfa á brott með kærustuna sem ekki var eins ósveigjanleg. Einn Netto starfsmaður verður eftir á ljósunum hjá mér og okkar manni með Netto pokann og er nú kominn með síma í hönd, virðist vera að þiggja leiðbeiningar frá þeim sem er hinum megin á línunni.

Loksins kemur grænt ljós og okkar maður heldur af stað yfir götuna en einhvern veginn æxlast það svo að þegar ég og Netto-strákurinn-í-símanum leggjum af stað kemur rauður kall á okkur svo við náum aðeins yfir miðja götuna og neyðumst til að nemar þar staðar, á meðan heldur okkar maður ótrauður áfram með pokann í hönd. Netto-strákurinn-í-símanum virðist ekki kippa sér upp við það að vera stopp á rauðum kalli enda okkar maður ekki líklegur til að stinga af með pokann, eins hægt og hann gengur.

Hins vegar bætast nú tveir þrekvaxnir Netto strákar í hópinn og þeir eru í miklum ham. Netto-strákurinn-í-símanum lýkur samtalinu og virðist nú vita betur hvernig ber að bregðast við og strax og græni kallinn kemur stökkva þeir þrír yfir götuna og hlaupa að okkar manni. Sá er næstum kominn í hvarf við tré og runnugróður en ég sé þó þegar þeir þrír stökkva á hann eins og þeir væru í Vestra og fella manninn með Netto pokann.

Þetta vakti þó nokkra athygli vegfarenda sem margir hverjir ráku upp stór augu enda ekki á hverju degi sem maður sér Netto lögguna að störfum. Þar sem ég var komin út á hjólabrautina þegar hér er komið sögu veit ég ekki hvernig allt fór að lokum, eflaust hefur okkar maður þó verið dreginn inn í Netto og látinn bíða þar annars konar lögreglu.

Engin ummæli: