fimmtudagur, 2. febrúar 2006

Ostur veislukostur?

Við gerðumst djörf fyrir stuttu - við keyptum nýja tegund af osti. Fyrir síðustu helgi vorum við að versla í Netto og rákumst á ostinn Lille Lise sem auglýstur er sem mildur og bragðgóður. Hann er líka klæddur rauðu vaxi svo okkur fannst að hann hlyti að vera bragðdaufur og áþekkur brauðostinum heima. Svo við kipptum Lille Lise með.

Það kom svo á daginn þegar við opnuðum ostinn að hann er ansi lyktarmikill og aðeins of bragðsterkur fyrir okkur. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að láta Heidda greyið spæna honum ofan í sig meðan hann væri gestur okkar en ekki varð okkur kápan úr því klæðinu, þetta er nefnilega frekar veglegt oststykki.

Við sátum sum sé uppi með oststykkið og urðum að koma því í góðar þarfir, helst af öllu að koma ostinum ofan í okkur. Síðan uppgötvuðum við að með því að smyrja góðu lagi af syltetøj ofan á brauðsneið með Lille Lise væri hægur vandi að snæða ostinn. Nú þurfum við bara að kaupa meiri sultu.

Engin ummæli: