Fyrsti vinnudagurinn var í gær. Við vöknuðum snemma til að vera mætt stundvíslega klukkan sjö við Enghavevej. Við þurftum nefnilega að hjóla í tæpan hálftíma til að komast í vinnuna en það var bara hressandi.
Ég var sett í að hreinsa beð með einni sem heitir Tine. Við keyrðum um hjólastígana á litlum golfbíl, það var skemmtilegt. Það var afskaplega heitt og mikil sól í þokkabót, ég var því mjög fegin að vera í stuttbuxum og með derhúfu. Við hefðum bara þurft að skipta út hrífum og hökum fyrir golfkylfur og þá hefði ég getað ímyndað mér að ég væri í fríi í Flórída.
Það gekk allt vel þennan fyrsta dag nema hvað við vorum svo þreytt eftir daginn að hjólatúrinn heim var ekki hressandi eins og hann hafði verið um morguninn, við orkuðum varla að fara í sturtu og vorum sofnuð fyrir hálf tíu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli