sunnudagur, 23. júlí 2006

Indian Corner

Bæjarferð á laugardegi er svosum engin nýjung fyrir okkur Nordvestlinga en alltaf er jafn gaman af þeim. Eftir happadrjúgar teveiðar í Søstrene Grene var kominn tími á að fá sér kvöldmat og var hann fenginn á Indian Corner.

Staðurinn er við Nørrebrogade og er ósköp notalegt að sitja þar, rabba og skoða fólkið sem gengur framhjá. Réttirnir á matseðlinum hljómuðu hver öðrum girnilegri og þegar kom að því að panta spurði ég til öryggis hvort ekki fylgdu ábyggilega hrísgrjón eða naanbrauð með. Það kom mér svolítið á óvart að svo var ekki, við létum okkur nú samt hafa það að panta grjón og naanbrauð aukalega.

Á meðan við biðum eftir matnum kom þjónninn með drykkina; danskvand og mangólassa. Ég smakkaði aðeins á lassanum og komst að því að þegar maður einu sinni er byrjaður á þeim guðadrykk þarf viljastyrk upp á 7,2 á richter til að slíta sig frá honum. Namminamminamm.

Maturinn var allur með besta móti en mangólassinn er mér ferskastur í minni og mjög líklegt að ég reyni fyrir mér í lassagerð heima fyrir á næstunni. Þetta er víst lítið annað en hrein jógúrt blönduð saman við mangó. Ætli ég prófi ekki að fara eftir þessu til að byrja með.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við borðuðum á Indian Corner með Pétri afa einu sinni. Mig minnir að maturinn hafi verið mjög fínn. Ekki var verra að staðurinn var mjög nálægt Peter Fabers Gade 44!

baldur sagði...

Ég hafði einmitt heyrt einhvern tala um góðan indverskan stað í grennd við þessa ágætu götu.