Í morgun heimsóttum við kryddbýlið Abraham’s Spice Garden hér rétt fyrir utan Kumily, flóran var reyndar svo fjölbreytt að frekar ætti að tala um grasagarð. Það sem ég man eftir að hafa séð var all spice, negull, kanill, kardimommur, piparkorn (rauð og græn), aloe vera (innan og utan), rósaepli, kaffibaunir (arabica og robust), rauða banana, engifer, vanillu, ananasplöntur (hver planta framleiðir einn ávöxt og deyr svo), langa papaya ávexti, múskat, lárviðarlauf, lady's shoe skrúðblóm, ýmsar ayurvedískar plöntur og býflugnabú sem framleiðir dýrt hunang fyrir ayurvedísk meðul.
Þvínæst var ferðinni heitið á teslóðir, bæði akra og verksmiðjuna Connemara Tea Factory. Fengum við að sjá hvernig svart te er búið til í Indlandi, alveg frá laufi til poka. Fyrsti hlekkurinn í keðjunni er að sjálfsögðu terunninn (líftími 80 ár!) og af honum tína verkakonur laufin. Konurnar fá 80 rúpíur á dag og miðast það við 17 kílóa tínslu en 5 rúpíur fyrir hvert kíló umfram það. Að sögn leiðsögumannsins vinna karlarnir erfiðari vinnu og fá u.þ.b. 100 rúpíur á dag.
Þvínæst eru laufin flutt inn í verksmiðjuna og vatn látið gufa hægt í gegnum þau. Svo eru þau kramin saman í nokkuð sem helst líkist mykju og sett í einhverja skilvindu sem klárar gerjunarferlið og hluta af þurrkuninni á nokkrum klukkustundum. Hálfþurru teduftinu er síðan sáldrað á færiband sem liggur í gegnum risastóran ofn (ógeðslega heitt í kringum hann) og þaðan fer það svo í sekki. Allt þetta til að fólk fái tebollann sinn :o)
Myndir hér!
3 ummæli:
Gaman að lesa svona fróðleiksmola um te. Þar til nýlega hafði ég ekki hugmynd um að til væri sérstakur terunni... Svona getur maður nú verið fáfróður.
Hæ hæ,mikið er alltaf gaman að lesa bloggið ykkar,það fær mig til að koma mér í hollustuna,hreyfa mig meira,fara í jóga,gera magaupplyftur,drekka vatn og borða hollt.Þið hafið þessi áhrif á mig þegar ég les bloggið og skoða myndirnar, já svona er maður nú skrýtinn. Hafið það nú sem allra best og gangi ykkur vel, kveðja María á Akranesi
Sæl Ásdís.
Ert þú Ásdís sem skrifaðir MA ritgerð um pólska innflytjendur á Íslandi? Ef svo er, er möguleiki að þú getir haldið erindi á ráðstefnu sem við hjá EES-vinnumiðlun (EURES) ætlum að halda 22. júní? Þar að segja ef þú verður komin heim frá Indlandi :)
Endilega hafðu samband við mig ef þú mögulega getur.
Með kveðju,
Þóra Ágústsdóttir
EES-vinnumiðlun
thora.agustsdottir@svm.is
Skrifa ummæli