miðvikudagur, 23. maí 2007

Apinn sem stal eplinu mínu

Ég sat á svölunum í dag og las eins og venjulega. Í þetta sinn hafði ég sankað að mér ýmsu dóti sem ég hafði dreift um allar svalirnar. Það var vasahnífur á öðrum kollinum, sæng til viðris á svalahandriðinu, kexpakki í gluggakarminum, bréfpoki með eplaskræli á gólfinu og ofan á honum rautt og girnilegt epli.

Ég ákvað að taka mér smá hvíld frá sólinni og fór inn. Ég lagðist upp í rúm þannig að ég sæi eitthvað út á svalir. Ekki vildi ég nefnilega að apinn færi að endurtaka heimsókn sína án minnar vitundar.

Til að sem best færi um mig hafði ég hátt en mjúkt undir höfði og bók í hönd. En ég dottaði og vissi ekki af mér fyrr en ég rumskaði, kannski hálftíma síðar. Ég fór þá út á svalir til að teygja úr mér. Í fyrstu tók ég ekki eftir neinu óeðlilegu jafnvel þó ég kíkti, allt virtist vera á sínum stað. Síðan varð mér litið á eplið mitt: það eina sem eftir var af því var bleika plastfrauðið. Mér varð svo hverft við því ég trúði ekki að apinn hefði leikið svona á mig. Ég leitaði af mér allan grun og komst þannig að því að allt hafrakexið var horfið og meira að segja hýðið úr bréfpokanum.

Ég veit ekki hvort þetta var vinur minn frá því í fyrradag en hver svo sem það var vona ég að hann hafi notið veiganna í botn. Ekki gat ég grátið eplið sem var "mitt", mannasetningar á borð við eignarétt og stuld eru nefnilega ekki til í hugum apa.

2 ummæli:

Unknown sagði...

En hvað þetta hefur verið sniðugur api... með góðan smekk greinilega.

ásdís maría sagði...

Já, hann var greinilega alveg inn á minni línu hvað mataræðið snerti, því er nú verr og miður :o)