Morgnarnir hér á Green Hotel eru stundum svolítil áskorun fyrir eyrun því inn í herbergið berast öll hljóð af götunni: Bílflautur, búðaeigendabrölt, hringlur betlandi hindúa, hundsgelt, beljubaul og mótorhjólagnýr. Maður er nú orðinn öllu vanur en eitthvað teygði þetta sig inn í drauma mína.
Í morgun dreymdi mig að ég og Ásdís værum að passa Áslaugu Eddu og var, eins og við má búast, glatt á hjalla. Áslaug Edda lék við hvurn sinn fingur og veifaði háværum plasthringlum af miklum móð. Eftir smástund varð ég þreyttur á hringlunum og bauð henni önnur leikföng en hún vildi ekki sjá þau.
Ég rótaði um allt og bauð henni enn fleiri leikföng, hljóðlaus leikföng, en allt vildi fyrir ekki því hristur skyldu það vera. Ekki man ég glögglega hve lengi þetta gekk á en að lokum fattaði ég að litla frænka var alsaklaus af þessum hávaða. Þetta voru hinir hristuóðu og fégráðugu hindúar, menn af holdi og blóði en ekki draumverur.
Þeir hafa þann sið að ganga á milli hótela og verslana með hringlur og reykelsi og biðja um peninga í skiptum fyrir blessun. Venjulega henda búðareigendur í þá einhverju klinki því ekki er reykelsið alltaf ilmgott og því engin blessun fyrir viðskiptin. Sennilega telst það blessun að vera snöggur að borga því þá stoppa þeir stutt.
3 ummæli:
Hinir hristuóðu og fégráðugu hindúar kallast sadhus og eiga að vera heilagir menn sem gefið hafa allt lífskapphlaup upp á bátinn.
Hins vegar hefur á undanförnum áratugum færst í vöxt að betlarar búi sig upp sem sadhus og leggist síðan á saklausa ferðamenn. Sem betur fer teljumst við ekki til þeirra, haha!
Alveg var það nú eftir trúarbrögðum heimsins að flokka betlara eftir fatnaði...
Satt er það, ferðamannasakleysið er farið út í veður og vind. Miðað við veðurfarið framanaf ferðinni mætti ætla að það hafi gufað upp:)
Alveg var það nú eftir trúarbrögðum heimsins að flokka betlara eftir fatnaði...
Satt er það, ferðamannasakleysið er farið út í veður og vind. Miðað við veðurfarið framanaf ferðinni mætti ætla að það hafi gufað upp:)
Skrifa ummæli