laugardagur, 26. maí 2007

Mugfliðakaup

Nú styttist í að dvalarleyfi okkar hér í Indlandi renni út og erum við því farin að hugsa okkur til hreyfings. Það fer reyndar það vel um okkur hér í fjöllunum að við nennum varla að fara nokkuð því sama hvert stefnan er tekin þá liggur leiðin alltaf til Delhi og þar er hitinn 45-48°C!

Í dag horfðumst við þó í augu við þessa staðreynd af nægilega mikilli alvöru til að úr yrðu mugfliðakaup. Miðakaupin voru svosum bæði ævintýri og ferðalag í sjálfu sér. Fyrir það fyrsta var gaurinn sem rekur ferðaskrifstofuna svo eiturhress að leitun væri að öðru eins ef ekki hefði verið fyrir kjölturakkann hans sem ætlaði alveg að springa úr félagslyndi.

Þarna var líka þýsk vinkona gæjans sem var nýkomin frá Srinagar í Kashmir og fengum við heldur betur fróðleiksmolana um Kashmir og íbúa þess frá ferðaskrifstofugaurnum. Hann sagði þá svo tungulipra, segja eitt, meina annað og gera allt annað. Sterkasta dæmið var að þeir gætu stungið mann í bakið án þess að maður fattaði það.

Að lokum kom þó að greiðslu og kaus ég að nota kort svo að ferðatryggingarnar héldust í fullu gildi. Ekkert mál félagi, við förum bara í næsta hús og straujum það! Þar tók á móti okkur maður með skærappelsínugulan posa og sagði sá: Ekkert mál félagi, við förum bara yfir götuna og tengjum hann þar! Svo brostu þeir báðir, ypptu öxlum og sögðu: Svona er þetta í Indlandi.

Þetta var semsagt ævintýri og ferð í sama pakkanum auk þess sem við fengum skemmtilega innsýn í tengslanet tíbetskra flóttamanna í Indlandi. Þeir standa saman, eru eiturhressir og eiga fallega hunda.

Engin ummæli: