Einu sinni, einu sinni enn var sungið í einhverju júróvisjónlaginu og hefur þessi lína komið í huga minn mjög reglulega síðustu fimm vikur. Yfirleitt hef ég annaðhvort verið kominn eða á leiðinni á klóið þegar laglínan hefur látið á sér kræla. Ég hef semsé verið með stöðugan niðurgang í fimm vikur ef hægt er að kalla niðurgang stöðugan.
Einu sinni, einu sinni enn gerði ég mér því ferð á sjúkrahús en ólíkt síðustu ferð var ég að þessu sinni vopnaður litlu glasi sem innihélt sýnishorn af því hvernig meltingarvegurinn virkar ekki. Ég deildi leigubíl með belgískri kunningjakonu sem einmitt átti sama eirindi við spítalann. Meðan beðið var eftir niðurstöðum settumst við á kaffihús og ræddum málin.
Skoski læknirinn doktor John tók svo á móti mér og útskýrði niðurstöður rannsóknarinnar. Eitthvað vissi hann um íslenska menningu og sagði mér í framhjáhlaupi að við hefðum gleymt nokkrum genum í heimalandi hans fyrir nokkrum árhundruðum. Ég kvaðst alsaklaus af því og lét hann mér þá í té upplýsingar um að í Skotlandi sé staður sem beri merkingarlega nákvæmlega sama nafn og Reykjavík. Ekkert af þessu var þó að finna í glasinu sem ég kom með til rannsóknar.
Samkvæmt greiningu doktorsins var ekki um matareitrun að ræða þarna í Agra um daginn, heldur amöbur. Þetta frumstæða lífsform hefur nú til allrar hamingju yfirgefið mig en meltingarvegurinn er enn eitthvað skelkaður og berst nú við afleiðingar skemmdarverkanna. Doktor John skrifaði því lyfseðil fyrir töfrasteinum þeim er sýklalyf heita ef ástandið hefði ekki lagast innan tveggja daga. Nú er bara að sjá hvað setur.
3 ummæli:
Ó hvað þessir Skotar eru sniðugir.
Vonandi fer nú að linna þessum amöbulátum. Farðu vel með þig og þið bæði.
Elsku Baldur minn! Varstu með amöbur í maganum :-)
Ég lærði ýmislegt um amöbur hérna um árið en aldrei hef ég heyrt nokkuð þessu líkt. Vonandi láta amöburnar sig hverfa fljótt. Góðan bata.
Amöburnar eru mér ekki lengur til ama -ba, þökk sé töfrasteinunum og stöðugri umönnun.
Ásdís hefur bætt við mannfræðigráðuna kúrsinunm heimahjúkrun þróunarlanda.
Skrifa ummæli