Á hverjum degi núna heimsæki ég læknastofuna til að láta hreinsa skurðinn og skipta um umbúðir. Það er langt frá því að vera uppáhaldspartur dagsins hjá mér en ég læt mig hafa það því ég vil að sjálfsögðu losna við sýkinguna og geta gengið á ný.
Ég er það slæm að ég ligg meirihluta dags upp í rúmi með fótinn ofan á háum púða og fer minna leiða innan herbergisins hoppandi á vinstri fæti. Þegar ég þarf að fara út fyrir herbergið höfum við haft þann háttinn á að Baldur ber mig á bakinu niður í anddyri en þaðan haltra ég svo að næsta veitingastað (maður lætur ekki sjá sig á almannafæri hangandi aftan á manninum sínum).
Það liggur því ljóst fyrir að ég fer ekki langt í svona ástandi og fyrir vikið erum við að verða búin að prófa alla veitingastaði í 50 m radíus. Ég fer heldur ekki í neinar bæjarferðir svona á mig komin og Baldur og pabbi hafa því þurft að finna sér eitthvað til dundurs. Það hefur ekki reynst þeim neitt sérlega erfitt með allar þessar nuddstofur í nágrenninu, en þeir eru búnir að fara í nudd á hverjum degi síðan pabbi kom.
Í dag treysti ég mér til að kíkja með þeim tveimur í nudd og pantaði mér hálftíma af sænsku nuddi og hálftíma af jurtanuddi. Sænska nuddið var notalegt fyrir utan þessa hörðu hnúta sem hún var alltaf að þrýsta á. Jurtanuddið var með því sérkennilegra sem ég hef prufað: sjóðheitum og illalyktandi vöndlum þrýst á bakið í örfáar sekúndur í einu. Sjóðheitar er reyndar svolitlar ýkjur en ég saup stundum hveljur, og illalyktandi gefur kannski ranga mynd því í raun lyktuðu vöndlarnir af soðnum kryddjurtum eins og engifer, sítrónugrasi og eucalyptus, sem venjulega gefur tilefni til fagnaðarláta en getur augljóslega orðið of mikið af hinu góða.
Eftir nuddið tókum við bleiksanseraðan leigara á súperfína Amari hótel og borðuðum á überflotta tælenska veitingastaðnum Thai only. Fékk mér tígrisrækju- og polemo salat í forrétt, krabba í ostrusósu í aðalrétt og ramma súkkulaðiköku í eftirrétt. Kvöddum hótelið með trega, hefðum vel geta hugsað okkur að skjóta rótum þarna.
3 ummæli:
Ó elsku Ásdís láttu þér batna fljótt!
Snilld að sjá allt í einu að pabbi úr sauðaleggnum er farinn að svindla sér inn á myndirnar... ;) þið eruð búin að vera svo lengi á ferðalagi að maður hefur á tilfinningunni að það taki langan tíma að komast til ykkar
Ó Ingivaldur, takk fyrir fallegu kveðjuna, ég skal svo sannarlega gera mitt besta til að verða við óskinni :o)
Hvað pabba snertir þá er ansi fyndið að fá ferskan ferðafélaga beint af klakanum sem starir opinmyntur á hverdagslega hluti eins og túk-túk og götueldhús! Gefur ferðinni allt annan blæ og það skemmtilegan.
Knús í krús frá borg englanna, þið eruð frábær.
Skrifa ummæli