þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Konungshöllin í borginni

Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilegan boðskap: ég er orðin rólfær!

Við biðum ekki boðanna heldur fóru strax í bæjarferð enda margt að sjá í Bangkok sem við höfum enn ekki barið augum. Að þessu sinni ákváðum við að skoða Grand Palace, eða konungshöll Tælendinga, sem er í næsta nágrenni við Banglamphu, hverfið sem við gistum í.

Við ákváðum að hvíla okkur á leigubílum í dag enda höfum við nýtt okkur þjónustu þeirra óspart undanfarna daga til að snarast með bilaðar tölvur og vælandi myndavélar til raftækjahjúkkunnar. Að þessu sinni tókum við ferju frá Pra Athit höfn og sigldum um Mae Nam Chao Phraya ánna sem leið lá niður að lendingarstaðnum sem stendur næst konungshöllinni. Ferðin um ánna var stutt en engu að síður verulega skemmtileg.

Þegar í höllina var komið urðum við að gjöra svo vel og fá lánuð föt til að mega spóka okkur um grundir hallarinnar. Strákarnir fengu lánaðar bláar æfingabuxur og ég fékk þá allra hrikalegustu blússu sem sögur fara af. Svona til fara áttum við að heimsækja höllina og hof hins emeraldgræna Búdda, ósmekkleg að okkar mati en greinilega siðleg að mati Tælendinga.

Aðalaaðdráttarafl konungshallarinnar er þetta fyrrnefnda hof og augljóst er að mestu púðri hefur verið eytt í byggingu þess og stúpanna í kring. Umhverfið minnti um margt á konungshöllina í Phnom Penh en hér er þó mun meira um gull: gullveggir, gullstyttur, gullsúlur, gullskreytingar, gullaltöru. Mergjað!

Ef það var ekki gullið sem glóði voru það byggingarnar sjálfar sem vöktu athygli okkar, dásamlega fallegar að sjálfsögðu og framandi þar að auki. Skrúðgarðarnir með dýrastyttum settu síðan punktinn yfir i-ið. Eða voru það appelsínuklæddu munkarnir sem stóðu og tóku myndir af hver öðrum? Eða var það lótusblómið og heilaga vatnið í hofinu sem pabbi blessaði sig með? Erfitt val...

Við vorum með seinustu gestum út úr hallargarðinum en strákarnir höfðu augljóslega ekki fengið nóg af konunginum því þeir tóku stefnuna beint á næsta sölubás með gula konungsboli til sölu og keyptu sér sitthvora flíkina. Þeir gerðu sér lítið fyrir og snöruðu sér í bolina á staðnum enda ekkert vit í öðru. Þegar maður á konungsbol í farteskinu blikknar allt annað í samanburði :o)

Við kveðjum Bangkok í kvöld, klukkan níu tökum næturrútu til eyjarinnar Koh Tao í Suður Tælandi, verðum í svokölluðum VIP vagni sem er tveggja hæða og skræpóttur. Og alveg örugglega, örugglega mjög loftkældur. Sokkar og peysur eru komnar í handfarangurinn, engar áhyggjur.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Gott að heyra að fóturinn sé að lagast. Farið vel með ykkur og góða skemmtun!

Unknown sagði...

Ó hvað þetta eru góðar fréttir.
Léttir
og líka léttir sprettir.
;-)

ásdís maría sagði...

Já, svo sannarlega góðar fréttir, það er ekkert gaman að hanga inn á herbergi meðan allt Tæland iðar af lífi fyrir utan!

Takk fyrir góðar kveðjur og bestu knús og kossar heim á klaka og heim í Stokkhólm :o)