Ég held það sé óhætt að fullyrða að við höfum náð að vinda ofan af okkur þessa viku sem við höfum nú verið í Bangkok. Hvernig væri annað hægt þegar hressingarkokteillinn samanstendur af góðum svefni, sólbaði á þaki og almennu sundlaugarbusli, hangsi á netinu og Koddanum (Oh My Cod!) og hverri kvikmyndinni á fætur annarri?
Við erum þegar búin að sjá fimm myndir í bíó (og enn fleiri í sjónvarpinu!). I now pronounce you Chuck and Larry var örlítið fyrirsjáanlega en skemmti okkur þó, The Invasion fannst mér góð og skóp umræður milli okkar skötuhjúa um dofinn heim, Bourne Ultimatum var náttúrulega bara töff út í gegn (er búin að vera með algjört æði fyrir Extreme Ways laginu hans Moby síðan) og Rush Hour 3 var kjánaleg (kannski þarf maður að hafa séð hinar tvær sem á undan fóru).
Crème de la Crème var hins vegar kvikmynd kvöldsins í kvöld, við fórum að sjá Harry Potter and the Order of the Phoenix. Hún var til sýnis í flottum sal með því allra stærsta tjaldi sem ég hef augum litið. Þar að auki var myndin sýnd í þrívídd en þó var aðeins um 20 mínútna bút að ræða, Guði sé lof, ég er ekki mikið gefin fyrir þessa tækni. Heildarupplifun: Góðar myndir og gott popp, takk fyrir mig Hollywood.
Það skondna við þessa bíódellu í Bangkok er að hún hefur kynnt okkur fyrir ókjörum verslunarmiðstöðva hér í borg. Mér finnst eins og nú sé ekki hægt að nefna eina slíka á nafn án þess að ég kannist við hana og hafi sótt þar eins og eitt kvikmyndahús. Fyrir þá sem hingað eiga leið á næstunni er þetta okkar mat á bíóhúsum kringlanna: Siam Discovery Centre (flott), Big C (flott og ódýrt), Central World (fínt en aðeins dýrara), MBK (fínt og billigt), Siam Paragon (flott en dýrt).
Hér skal að sjálfsögðu tekið fram að "flott" er það sem á íslenskan mælikvarða teldist flott, en "dýrt" væri í hugum Íslendinga rangnefni því þegar maður getur hugsað með sér "Guð minn góður, er þetta verðið á bíómiða, ég gæti keypt þrjá lítra af mjólk fyrir þetta heima", þá er ekki dýrt í bíó.
2 ummæli:
Við horfðum á Bourne Ultimatum um daginn og mér fannst lagið í lokin ógeðslega flott. Er það sem sagt "Extreme Ways" með Moby? OK, takk fyrir upplýsingarnar, nú fer ég finn mér lagið :-)
Já! Nákvæmlega, það er lagið, ég alveg dýrka það. Það er hægt að finna myndbandið á youtube, auðvitað. Njóttu heill :o)
Skrifa ummæli