föstudagur, 14. september 2007

Chiang Mai í tilefni dagsins

Við komum til Chiang Mai í morgun með næturlestinni frá Bangkok. Það er óhætt að mæla með þessari lestarferð, bæði er hún nægilega löng til að tryggja manni svefn og síðan er hugsað vel um mann. Þeir sem kæra sig um geta pantað kvöldmat af matseðli og þá vippar þjónninn fram borði, og einnig getur maður pantað morgunmat og er þá vakinn tímanlega til að snæða hann. Allir fá hins vegar þá þjónustu að búið sé um þá í rúmunum áður en lagst er til svefns, það vantar bara að maður sé sunginn í svefn.

Chiang Mai virkar strax á okkur sem afslappaða Asía sem við eigum að þekkja. Gott dæmi um það er að í Bangkok lendir maður ákaflega sjaldan á spjalli við samferðamenn en í Chiang Mai var slíkt spjall það fyrsta sem mætti okkur. Meðan við vorum enn að leita að hóteli rákumst við á svissneskt par og tókum við öll spjall saman. Okkur fannst við flott á því að geta sagst hafa ferðast um í bráðum níu mánuði en okkur fannst ekkert sérlega mikið til þess koma þegar þau upplýstu að þau væru búin að ferðast um Asíu og Eyálfu í þrjú ár, á únímók! Og þar á undan vörðu þau fjórum árum í að byggja únímókinn! Það kalla ég staðfestu. Fyrir vikið hafa þau keyrt þvers og kruss, gist og eldað í bílnum og jafnvel boðið þangað gestum. Þetta hljómar allt vel en að keyra frá Sviss þvert yfir Evrópu, gegnum fyrrum Júgóslavíu og Tyrkland yfir til Íran og Pakistan og þaðan inn í Indland og Nepal, og frá Indlandi með ferju yfir til Ástralíu, er meira en að segja það.

Við erum semsagt í Chiang Mai, höfuðstað norður Tælands, og hyggjum á tveggja vikna dvöl hér. Við erum komin með notalegt herbergi á litlu gistiheimili sem er rekið af henni Panöddu frá Tælandi og ástralska eiginmanninum hennar John. Hér er líka töluvert notalegri stemmning en í Bangkok, færra fólk, minni umferð og almenn rólegheit svífa yfir vötnum.

Og hvert er svo tilefnið sem ég minnist á í færsluheitinu? Við Baldur eigum hvorki meira né minna er sex ára sambúðarafmæli í dag. Elsku Baldur, hér færðu stórt knús frá Hnetu.

2 ummæli:

baldur sagði...

Þakka þér knúsið, hér færðu knús á móti og það riiisastórt :)

Nafnlaus sagði...

Til Hamingju bæði tvö og ég vona að næstu hundrað ár verði ykkur jafn góð og þessi liðnu!!!!
Þið passið hvort öðru svo vel og voruð svo lánsöm að finna hvort annað,ég veit að allir góðir Buddar vaka yfir ykkur og blessa.
Farið nú inn í næsta musteri og kveikið á kertum og reykjelsi fyrir áframhaldandi grósku í sambandinu.
Ykkar,
STJÁNI