Þessi Asíureisa hefur fært okkur eitt alveg stórmerkilegt: Við erum orðin þaulvanir ferðalangar. Við erum svo reyndir ferðalangar að Lonely Planet ætti að borga okkur fyrir ráðleggingar í staðinn fyrir að við borgum þeim fyrir ráð.
Ágætisdæmi um þetta eru ferðalögin sjálf. Þegar við leggjum upp í ferð erum við með allt á hreinu og allt er gert eftir rútínu sem hefur þróast í ferðinni. Algengustu fararskjótarnir eru flugvélar, lestir eða rútur, leigubíll er algjör lúxus og túk-túk er algjört helvíti.
Ef um flugferð er að ræða pökkum við öllu eftir kúnstarinnar reglum (vökvakennd efni í farangur, bækur, tímarit og túnfiskur í handfarangur), læsum pokunum með keðjunum sem við keyptum í Byko og stillum talnalásinn á 888. Talan 888 er mikil lukkutala og við stólum frekar á farsæla endurfundi ef hún er með í för heldur en þegar við notumst við tölur eins og 666 (haldið ykkur frá djöflinum) eða 007 (haldið ykkur frá töffaranum). Hingað til hefur farangurinn skilað sér í okkar hendur ósnertur, kannski er það 888 að verki, kannski plastbandið sem Indverjar heimta að sér reyrt utan um farangurinn.
Ef um lestarferð er að ræða, einkum og sér í lagi næturlest, tökum við fram sængurverið (þ.e. ef við erum í Indlandi) og læsum töskunum við sterka grind (sérstaklega ef við erum í Indlandi en það er þó alltaf hyggilegt). Áður en maður leggst til hvílu þarf maður að hafa tiltækt lítið vasaljós, klósettpappír, gleraugun og gleraugnahylkið, einhverja hugmynd um hvar sandalarnir eru niðurkomnir, peysu og sokka og sjal (út af loftkælingunni), vekjaraklukku, lesefni og svefngrímu. Það er mesta furða að maður komist fyrir í þessum mjóu beddum sem boðið er upp á þegar allur búnaðurinn hefur verið tekinn fram.
Að lokum eru það rútuferðirnar, en fyrir þær erum við orðin vönust að búa okkur undir. Við höfum oftast tekið rútur (neyðst til að taka) og höfum fyrir vikið fengið væna flís af raunalegri reynslu. Fyrir ferðina birgjum við okkur upp af vatni og mat svo sumir verði ekki of bílveikir, síðan klæðum við okkur í peysur og sokka og sveipum okkur sjali (á við um alla Suðaustur Asíu, á ekki við um Indland). Ef um næturferð er að ræða blásum við upp hálskodda, troðum töppum í eyrun og setjum svefngrímuna svörtu fyrir augun, höllum að lokum sætinu og bíðum andvökunætur. Sönn saga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli