Ég áttaði mig ekki á því fyrr en fyrir stuttu að það er komið haust í Evrópu. Hér í Tælandi er alltaf sama árstíðin alla daga: sumar. Suma daga rignir, suma daga ekki, en alla daga er sól og hiti. Það er því sumar í mínum huga. En þegar ég heyrði frá mínum betri helmingi að það væri við frostmark heima mundi ég eftir haustinu og því að sumarið væri liðið undir lok.
Og það þýðir að ekki er seinna vænna en að skrifa um sumarbækurnar. Þær voru sjö að þessu sinni, fæstar í júní, flestar í ágúst. Sumar bækurnar voru betri en aðrar en í heildina voru sumarbækurnar góð lesning.
Þegar við vorum í Kathmandu í júní byrjaði ég á bók Dai Siji, Balzac and the Little Chinese Seamstress. Ég kláraði hana síðan einhvern tímann í Víetnam, sem mér fannst einstaklega viðeigandi þar sem Víetnam er það sem ég hef komist næst Kína, menningar- og landfræðilega séð. Sagan sjálf er einföld og hispurslaus en einnig fræðandi því í bakgrunninn heyrir maður í kínversku byltingunni og finnst maður hálfpartinn verða fyrir henni. Það er allavega víst að maður tekur afstöðu til hennar.
Í Kambódíu byrjaði ég á nýjustu, og jafnframt síðustu, Harry Potter bókinni og spændi hana í mig í einum grænum. Kláraði hana í rútunni á leiðinni til Siem Reap og var mjög fegin því að sitja við gluggasæti svo engin sæi tárin sem trilluðu niður kinnarnar. Það var aðeins erfiðara að fela litlu ekkasogin og nefmæltan talandann.
Eftir fótaðgerðina í Bangkok var ég rúmföst og náði að bæta upp lélega frammistöðu í bókmenntaheimum. Baldur skottaðist reglulega út í litlu skiptibókabúðina með óskalista og keypti það sem hann kom höndum yfir. Fyrsta bókin sem ég las í rúmlegunni var The Shadow of the Winds. Sögusviðið er Barcelona á 6. áratugnum sem í sjálfu sér er mjög heillandi. Sagan snýst síðan um bókabrennur og morð og aðalsögupersónan reynir að leysa gátuna. Flottur efniviður sem mér fannst höfundur ekki vinna nægilega vel með. Engu að síður ágætislesning.
Næst las ég tvær góðar næstum því í einum teig: The Secret Life of Bees og Water for Elephants. Sú fyrri er saga sem ég myndi lýsa sem hjartahlýrri en lausri við ofnotkun á væmni. Segir af 14 ára Lily Owen sem flýr heimili sitt í Georgia til að hafa upp á upplýsingum um móður sína. Inn í söguna fléttast kynþáttaóeirðirnar í Bandaríkjunum á 7. áratugnum og gerir söguna bæði trúverðugri og mannlegri. Sú síðari er ástarsaga og sögusviðið er sirkus í Bandaríkjunum á tímum Kreppunni miklu. Segir það ekki allt sem segja þarf? Frábær saga.
Að lokum eru það tvær ólíkar bækur, önnur fræðilegs eðlis, hin skáldsaga par excellance. The Tipping Point er áhugaverð samantekt á niðurstöðum ýmissa rannsókna og notar höfundur þær til að varpa ljósi á hvenær vara eða hugmynd verður að tískubólu. Áhugaverðar pælingar sem sitja þó kannski ekki nógu vel eftir.
A Thousand Splendid Suns, nýjasta bók Khaleid Hosseinis, segir frá tveimur konum í Afganistan og spannar sögutíminn nokkra áratugi. Ég vil sem minnst segja um bókina þar sem hún er enn ekki komin út á Íslandi en þetta get ég þó sagt því það er satt: Bókin er það góð að eftir að ég kláraði hana las ég hana alla upphátt fyrir Baldur. Stundum verður maður bara að tryggja að góðar sögur nái eyrum góðs fólks.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli