Ó, við erum með svo mikla heimþrá þessa dagana!
Fram til þessa hefur heimþráin látið á sér kræla á u.þ.b. þriggja mánaða fresti. Nú þegar nákvæmlega níu mánuðir eru liðnir síðan við héldum í reisuna hefur hún skotið upp kollinum, en í þetta sinn af miklu meiri festu, og fyrir vikið erum við pínu tregafull þessa dagana.
Ástæðan fyrir því að heimþráin er meiri nú en venjulega er auðvitað flugmiðakaupin sem fóru fram um daginn. Nú þegar við erum með flugmiðana í höndunum er heimferðin orðin raunveruleg og því í raun óhjákvæmilegt að maður leiði hugann að heimahögunum. Undir því yfirskini að leiða hugann heim erum við búin að njóta þess að hanga á netinu og skoða íslenskar bloggsíður og myndir af íslenskri náttúru.
Yfirleitt hefur heimþráin fyrst beinst að mat (!), við söknum þess að fá ýsu með kartöflum og salati, eiga kost á því að pressa eigin ávaxta- og grænmetissafa, fá súrmjólk með púðursykri og kornflögum, teiga ískalt maltið og japla á strumpaópali, svo fátt eitt sé nefnt.
Auðvitað saknar maður líka athafna, staða og andrúmslofts. Í augnablikinu sakna ég þess að kíkja í Gerðuberg og Háskólabíó, Fjarðarkaup og Kolaportið, sakna þess að sjá fiskibúðir á hornum og sjá báta í höfninni, kasta brauði í endurnar á Tjörninni hvort sem er að sumri eða vetri, upplifa árstíðaskipti, vera föst í slabbi og jólatraffík í myrkrinu og upplifa jólastemmningu eins og hún gerist best. Guði sé lof að við höldum jólin heima þetta árið, ég er nefnilega byrjuð að skreyta í huganum.
Fyrst og fremst söknum við þess að hafa fasta búsetu og öllu sem því fylgir. Að sofa í sama rúminu, geta alltaf gengið að því vísu að það sé heitt vatn í sturtunni og engir maurar í rúminu, geta valið úr fötum til að ganga í og þurfa ekki að ganga í fötum sem hafa marglitast og eru orðin teygð og toguð. Ég sakna þess líka að elda, skera grænmeti, vaska upp, þurrka af, setja í þvottavél og brjóta saman þvott.
Ég lít svo á að svona heimþrá sé mjög gagnleg. Ef ég einhvern tímann fer t.d. að kvarta undan húsverkum eða slabbi ætla ég að lesa þessa færslu, það hjálpar örugglega.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli